Skoðun

Heimaþjónusta fyrir eldri borgara er framtíðin

Fríða Hermannsdóttir skrifar
Eins og flestum er kunnugt fjölgar ört í hópi eldri borgara og mikil þörf er á úrbótum í þjónustu fyrir þá. Í námi mínu í hjúkrunarfræði kviknaði áhugi hjá mér á því málefni og einlægur vilji til að bæta aðstæður og innleiða nýja hugmyndafræði í þjónustu fyrir þennan margmenna og fjölbreytta hóp.

Neikvæð viðhorf

Lengi hafa verið neikvæð viðhorf á einkavæðingu heilbrigðisþjónustu hérlendis, þá sérstaklega upp á síðkastið. Talað er um hneyksli vegna útboða og menn óttast að íslenska heilbrigðiskerfið verði með tímanum líkt og tíðkast í Bandaríkjunum.

Einkavæðing á sér þó einnig stað í miklum mæli á Norðurlöndunum og hefur hún gengið nokkuð vel. Svíþjóð er í fyrsta sæti á „Global age watch index“ listanum sem mælir gæði heilbrigðisþjónustu í heiminum. Því er æskilegra að horfa til Norðurlandanna þegar kemur að einkavæðingu í stað þess að tengja orðið einkavæðingu á óréttmætan hátt við Bandaríkin og það tryggingakerfi sem er þar við lýði. Núverandi kerfi hérlendis mun ekki ganga upp til lengdar og því þurfum við að horfa á nýjar leiðir. Sú fullyrðing er ekki úr lausu lofti gripin, heldur byggð á reynslu annarra þjóða og áliti virtra opinberra stofnana eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem hefur kallað eftir breytingum á þjónustu við þennan ört vaxandi hóp.

Án einkavæðingar sér hið opinbera eingöngu um þjónustuna og þar með er ríkið að einoka markaðinn. Sé horft til Svíþjóðar þá hafa sveitarfélögin yfirumsjón með allri heimaþjónustu. Einkarekin fyrirtæki geta sótt um aðild og þurfa þá að standast ákveðin viðmið. Opinber matsaðili sér um að meta þarfir hvers og eins eldri borgara sem sækir um þjónustu og hversu mikla aðstoð viðkomandi á rétt á. Sveitarfélagið ákveður verðið og ber því skylda til að niðurgreiða heimaþjónustu til þeirra fyrirtækja sem standast viðmiðin. Slík leið er mun betri heldur en útboðsleiðin, þar sem velferð fólks er í húfi og slíka þjónustu ætti ekki að vera hægt að undirbjóða. Eldri borgarar ættu að geta valið sér þjónustuaðila sér að kostnaðarlausu. Þetta er sú leið sem ég vil að tekin verði upp hérlendis en með þessu móti er hægt að stuðla að jafnrétti og aukinni skilvirkni í heilbrigðisþjónustu. Eldri borgarinn fær nýtt hlutverk og sjálfstæði þar sem hann stjórnar ferðinni ásamt því að samkeppni myndast á milli þjónustuaðila sem allir vilja bjóða sitt besta og hafa ánægða viðskiptavini.

Lausnin

Mín sýn er sú að jafnrétti eigi að ríkja á milli allra þjóðfélagsþegna, jafnrétti á að eiga við um konur jafnt sem karla og þá á aldur og efnahagur ekki að vera áhrifaþáttur á gæði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Eldri borgarar eiga ekki að vera þurfalingar sem kerfið neyðist til að sinna heldur sjálfstæðir einstaklingar sem hafa réttindi og tækifæri til að velja hvað hentar þeim best. Flest getum við verið sammála um að núverandi kerfi býður því miður ekki upp á það.

Þrátt fyrir að mæta áhugaleysi og oft á tíðum skilningsleysi (og hreinlega vanþekkingu) hins opinbera mun ég samt halda áfram að vinna að framþróun. Heimaþjónusta er framtíðin og flestir vilja eldast á eigin heimili. Með heimaþjónustu má efla sjálfstæði fólks og heilsu þess ásamt því að gera því kleift að búa lengur á eigin heimili. Það er kominn tími til að forgangsraða í fjárlögum ríkisins með heilbrigðiskerfið í forgangi, þar sem eldri borgarar hafa meira vægi í þjóðfélaginu. Mér er virkilega umhugað um málefni þeirra, flest okkar munu vonandi ná háum aldri en það er ekki nóg að lifa lengi heldur viljum við einnig lifa góðu lífi.

fréttablaðið/gva



Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×