Lífið

Heimanámið ætti að verða leikur einn

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Kristján Ingi, Kjartan og Hörður ætla sér stóra hluti.
Kristján Ingi, Kjartan og Hörður ætla sér stóra hluti. mynd/startupreykjavík
Þeir Kjartan Þórisson, Hörður Guðmundsson og Kristján Ingi Geirsson mynda teymið Study Cake. Það var valið af Start-up Reykjavík sem eitt tíu sprotafyrirtækja í árlegan sprotahraðal Arion banka og Klaks Innovit. Strákarnir eru allir nýútskrifaðir úr menntaskóla en þeir telja mörgu ábótavant hvað heimavinnuna varðar.

„Við erum allir nýútskrifaðir og höfum lengi talað um mikla galla í núverandi menntakerfi, sama hvort það er hér heima á Íslandi eða erlendis. Okkur langaði að leggja okkar af mörkum og smáforritið Study Cake er fyrsta skrefið í áttina að því,“ segir Kjartan. Þeir Hörður stunduðu nám við Verzlunarskólann en Kristján var í Tækniskólanum.

„Okkur langaði að leikjavæða heimavinnuna og gera hana meira spennandi. Þessu eiga nemendur og kennarar eftir að hagnast á. Það verður líkt því sem nemendur þekkja nú þegar í símaleikjum. Þeir sem spila fá stig fyrir að svara rétt og svokallaðar heilasellur fyrir að klára verkefnið, sem eru síðan notaðar til þess að gera heimavinnuna auðveldari í framtíðinni. Kennarinn fær upplýsingar um svör nemenda sinna og sér auðveldlega hvaða nemendur eru eftir á og gætu jafnvel þurft meiri hjálp. “

Strákarnir áætla að gefa út lokaðan prufuaðgang fyrir íslenska kennara í næstu viku en í framtíðinni ætla þeir að reyna fyrir sér utan landsteinanna og leyfa erlendum kennurum að prufukeyra smáforritið. Þeir hafa nú þegar fengið sína fyrstu fjárfestingu frá Arion banka og hafa skrifað undir árssamning við KPMG.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×