Erlent

Heimakær Trump tregur til að flytja í Hvíta húsið

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Donald Trump, næsti forseti Bandaríkjanna, er ekki ýkja áhugasamur um að flytja í Hvíta húsið þegar hann tekur við embætti í janúar. Samkvæmt The New York Times hefur hann spurt ráðgjafa sína hversu miklum tíma hann komi til með að þurfa að eyða í Hvíta húsinu en hann vill heldur verja tíma sínum á heimili sínu í New York. 

Hvíta húsið er sem kunnugt er bústaður forseta Bandaríkjanna og er hefð fyrir því að Bandaríkjaforsetar bæði búi þar og starfi. Húsið var gert að forsetabústað árið 1800 en fyrsti forsetinn sem þar bjó var John Adams. 

Forsetar fyrri ára hafa þó lagt í vana sinn að yfirgefa Hvíta húsið í fríum sínum. Til dæmis varði George W. Bush fríum sínum í Nýja Englandi í norðausturhluta Bandaríkjanna á meðan Obama fór í golfferðir.

 

Trump virðist þó vera að íhuga hvort hann gæti dvalið í Hvíta húsinu á virkum dögum en flogið svo „heim“ til New York í svítu sína í Trump- turninum sem stendur við fimmtu breiðgötu þar í borg.

Trump sagði í samtali við New York Times að meðan á kosningabaráttunni stóð hafi hann iðulega flogið heim til New York svo hann gæti vaknað í eigin rúmi. Hann sagði að hann myndi helst vilja eyða sem mestum tíma í New York í forsetatíð sinni en hann vill einnig fá tækifæri til þess að heimsækja golfvöll sinn í New Jersey og annað heimili sitt í Flórída.

Í grein New York times segir að Trump sé vanafastur, hann vakni klukkan fimm á hverjum morgni og les helstu dagblöðin. Hann hefur búið í Trump-turninum síðastliðin þrjátíu ár en íbúð hans á efstu hæð turnsins er að miklu leyti marmaralögð og skrýdd 24 karata gulli. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×