Lífið

Heimahreyfing eykur styrk og hreyfifærni eldra fólks

Vera Einarsdóttir skrifar
Halla Thoroddsen (t.v.) og Ásdís Halldórsdóttir segja kerfið hafa gefið góða raun ytra. Það er hannað af dönskum sjúkraþjálfurum en viðmótið hefur verið fært yfir á íslensku.
Halla Thoroddsen (t.v.) og Ásdís Halldórsdóttir segja kerfið hafa gefið góða raun ytra. Það er hannað af dönskum sjúkraþjálfurum en viðmótið hefur verið fært yfir á íslensku. Vísir/GVA
Sóltún Heimahreyfing er nýjung í hreyfingu fyrir eldri borgara á Íslandi. Heimahreyfing hentar eldra fólki sem býr heima en vill auka styrk og bæta heilsuna til að geta betur bjargað sér sjálft. Fyrirkomulagið er þannig að leiðbeinandi mætir heim til viðkomandi og gerir markvissar æfingar. Tekið er mið af hreyfigetu hvers og eins. Sams konar fyrirkomulag ytra hefur gefið góða raun.

Í fyrstu heimsókn er byrjað á því að framkvæma próf sem greinir líkamlegan styrk og getu einstaklingsins. Það er gert með velferðartækni sem heitir Digi­Rehab. Hún á rætur að rekja til Danmerkur og er notuð til að styrkja eldri borgara og draga úr þörf fyrir heimaþjónustu. Þegar niðurstöður prófsins liggja fyrir skilar DigiRe­hab sérsniðnu æfingaprógrammi sem hentar viðkomandi. Tilgang­urinn með æfingaprógramminu er að styrkja þá þætti sem þarf sérstaklega að efla svo einstaklingurinn öðlist betri hreyfifærni, geti í auknum mæli bjargað sér sjálfur og þurfi minni heimaþjónustu.

Kerfið er sérhannað af dönskum sjúkraþjálfurum en viðmótið hefur verið fært yfir á íslensku. Það hefur gefið góða raun víða í Danmörku og sýna rannsóknir að þrír af hverjum fjórum öðlast bætta heilsu eftir þriggja mánaða þjálfun. Líkamlegur styrkur og almenn hreyfifærni eykst auk þess sem andleg heilsa batnar. „Það er þó ekki þannig að fólk geri æfingarnar eitt og sér. Lykilatriðið er að starfsmaður kemur heim og leiðbeinir,“ segir Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns Heima.

Ásdís Halldórsdóttir er forstöðumaður Heilsu & Vellíðanar sem heldur utan um Sóltún Heimahreyfingu og hópatíma fyrir 60+. Hún er með B.Sc. í íþróttafræði og hefur sérhæft sig í hreyfingu eldri aldurshópa síðastliðin ár.

„Við verðum ekki bara veikburða af því að við eldumst, heldur líka af því að við hreyfum okkur ekki. Vöðvamassinn minnkar með aldrinum en með markvissri og reglulegri styrktarþjálfun er auðveldlega hægt að viðhalda eða auka vöðvamassann, jafnvel eftir 80 ára aldur,“ segir Ásdís. Hún segir sífellt koma fram nýjar rannsóknir sem sýna að styrktaræfingar á efri árum bæti hreyfifærni og almenn lífsgæði. „Þegar fólk hættir að vinna eða missir maka aukast líkurnar á því að það einangrist. Við það bætist aukin hætta á einmanaleika, þunglyndi, máttleysi og stirðleika. Reglulegar styrktar­æfingar veita aukinn kraft til daglegra athafna og almennt betri heilsu. Við viljum aðstoða fólk við að koma því inn í rútínuna,“ segir Ásdís.

Hún segir leiðbeinanda mæta heim tvisvar í viku í tuttugu mínútur í senn og leiðbeina með DigiRehab styrktaræfingarprógramminu í spjaldtölvu. Eftir sex vikur er gert endurmat á heilsu og færni og æfingaplanið uppfært. Hún segir miðað við lágmarks­áskrift í þrjá mánuði til að ná tilætluðum árangri. Ásdís segir auk þess mælt með daglegri hreyfingu. „Það má vera ganga eða önnur hreyfing inni sem tekur að minnsta kosti 30 mínútur á dag.“

Þær Ásdís og Halla segja ávinninginn af heimaþjálfuninni geta verið margvíslegan en að markmiðið sé fyrst og fremst að einstaklingurinn styrkist og honum líði vel á eigin heimili. „Fólk öðlast aukinn styrk sem getur meðal annars dregið úr hættu á falli. Það á auðveldara með að sinna daglegum athöfnum og öðlast betri svefn og almennt bætt lífgæði.“

Þær segja fjölda eldri borgara sífellt fara vaxandi þökk sé læknavísindunum og hinum ýmsu tækninýjungum sem gera það að verkum að fólk lifir lengur og betur. „Samhliða því hefur orðið mikil vitundarvakning um mikilvægi góðrar heilsu til að eldast farsællega og er heimahreyfing liður í henni. Hún ætti því bæði að gagnast einstaklingum og samfélaginu. Þá er ótalinn félagslegi ávinningurinn en þeir sem nýta sér þjónustuna fá ekki aðeins líkamlega aðstoð og þjálfun heldur líka heimsókn og félagsskap.“

Sóltún Heima mun standa höfuðborgarbúum til boða frá og með 1. maí næstkomandi. Í lok apríl mun Sóltún Heima auk þess fara af stað með fjölbreytta hópatíma fyrir sextíu ára og eldri. 

Sóltún Heima er hluti af Sóltúnsfjölskyldunni sem rekur Sóltún öryggis- og þjónustuíbúðir og Sóltún hjúkrunarheimili. Allar nánari upplýsingar er að finna á soltunheima.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×