Skoðun

Heimahjúkrun HH – ört vaxandi álag

Anný Lára Emilsdóttir og Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir skrifar
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) starfrækir heimahjúkrun í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsumdæmi. Þegar þetta er skrifað sinna hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og félagsliðar heimahjúkrunar HH rúmlega 600 sjúklingum, sumum hverjum oft á dag. Greinarhöfundar gerðu úttekt á starfseminni þar sem einblínt var á árin 2010 og 2013. Hér verður farið yfir meginniðurstöður þeirrar vinnu en skýrslan er birt í heild sinni á heimasíðu HH http://www.heilsugaeslan.is/?PageID=61.

Á árunum 2010-2013 varð fjórðungsaukning í sjúklingafjölda og 27% í aukningu vitjana hjá heimahjúkrun HH. Nokkrar meginskýringar eru á þessu aukna álagi. Stefna stjórnvalda hérlendis hefur verið að draga úr stofnanavistun, legudögum sjúkrahúsa fækkar, íbúum fjölgar og hlutfall aldraðra eykst. Tækninýjungar gefa veikum einstaklingum tækifæri á að lifa lengur og aukinn vilji er hjá sjúklingum að liggja banaleguna í heimahúsi.

Því miður hefur fjármagn til starfseminnar ekki aukist að sama skapi en HH er á fjárlögum ríkisins. Mesti álagstíminn hjá heimahjúkrun HH er dagvakt á virkum dögum en á umræddu þriggja ára tímabili var engin fjölgun stöðugilda á þeim vöktum. Ef mönnunin hefði átt að haldast í hendur við fjölgun sjúklinga hefði þurft að fjölga stöðugildum á dagvakt á virkum dögum um 28%, þ.e. úr 37 stöðugildum í 47 stöðugildi. Á viðmiðunarárinu 2010 var aukins álags þegar farið að gæta hjá heimahjúkrun HH því sú þróun var þá hafin sem hér að framan er lýst. Takmarkað svigrúm var því til að mæta þessu aukna álagi. Hér er ekki um tímabundið ástand að ræða. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir að öldruðum fjölgi um 14% á næstu fjórum árum hérlendis, en í dag er þessi aldurshópur 84% af skjólstæðingum heimahjúkrunar HH.

Er pláss fyrir tengdó?

Að mati greinarhöfunda er búið að hagræða eins og frekast er unnt hjá heimahjúkrun HH. Starfsfólk hefur í síauknum mæli þurft að grípa til aðgerða, s.s. að auka kröfur um aðkomu aðstandenda, skera vitjunartíma við nögl og mynda biðlista. Starfsfólk telur sig ekki ná að sinna sjúklingum sínum eins vel og þörf er á og sjúklingar, aðstandendur og starfsfólk annarra heilbrigðisstofnana lýsa óánægju sinni með ófullnægjandi þjónustu heimahjúkrunar HH. Aukið fjármagn þarf til heimahjúkrunar HH til að hægt sé að fylgja stefnu stjórnvalda og bjóða upp á viðunandi hjúkrunarþjónustu í heimahúsi. Að öðrum kosti þarf að endurskilgreina og í kjölfarið draga verulega úr þeirri þjónustu sem heimahjúkrun HH er ætlað að veita. Sú leið er ekki vænleg að mati greinarhöfunda, hvorki fjárhagslega né fyrir samfélagið þar sem það hefði ný vandamál í för með sér, s.s. auknar innlagnir á sjúkrahús, bugaða aðstandendur og óánægju í þjóðfélaginu.

Er pláss fyrir tengdó heima hjá þér? er yfirskrift komandi hjúkrunarþings Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þetta er spurning sem þú, lesandi góður, gætir þurft að spyrja sjálfan þig ef heldur fram sem horfir.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×