Skoðun

Heima er best

Sigþrúður Guðmundsdóttir skrifar
Drög að húsreglum barna sem vilja halda haus á ofbeldisheimilum byggðar á reynslusögum hundraða barna sem dvalið hafa í Kvennaathvarfinu.

Heima er best að vera sem minnst, því að alls staðar, líka í myrkrinu á skólalóðinni, í ísköldu strætóskýli eða hlaupandi yfir Miklubrautina ertu öruggari en heima.

Samt; heima er best að vera sem mest, því allt það hræðilega sem gerist þegar þú ert heima getur orðið ennþá hræðilegra þegar þú ert þar ekki og stundum er skárra að vita hvað er að gerast heima en að vita það ekki.

Heima er best að muna, þegar hann öskrar „ég ætla að drepa þig, helvítis hóran þín“ að hann hefur oft öskrað það áður en hann hefur aldrei beinlínis drepið hana svo kannski sleppur það í þetta skipti líka. Ef þú gleymir þessu getur hent að þú farir að grenja eins og aumingi eða pissir í buxurnar og margir hafa lent í vandræðum fyrir minna.

Heima er best, eða öllu heldur nauðsynlegt að hafa allar flóttaleiðir á hreinu í hverju einasta herbergi. Stundum liggur hún út, stundum inn á klósett og stundum inn í skáp eða undir rúm. Þú þarft líka að muna að þó það sé alltaf betra að fela sig með systkinum sínum þá er það ekki alltaf hægt og þó það sé hræðilegt að vera alein í öskrunum þá er það stundum lífsnauðsynlegt.

Heima er best að hafa alla hluti á hreinu og pirra aldrei neinn. Hella aldrei niður mjólk, stilla sjónvarpið aldrei of hátt, fá aldrei lélega einkunn og segja aldrei ljót orð (allavega ekki þegar einhver heyrir til) eða gera neitt annað hættulegt. Ekki svo mikið af því að það komi í veg fyrir að eitthvað hræðilegt gerist heldur meira vegna þess að það hræðilega sem gerist er örlítið minna þér að kenna ef þú passar upp á allt.

Heima er best að muna að orð eru í rauninni ekki neitt, þau eru bara hljóð en ekki hnífar eða grjóthnullungar eins og þér finnst þau samt vera þegar þau fljúga milli veggja í stofunni.

Heima er best að taka þátt í gleðistundum með heilum hug, og jafnvel þó þið séuð ennþá hrædd eftir síðustu orrustu, sár eftir orðin sem féllu og leið yfir dótinu sem skemmdist. Takið samt þátt í gleðinni eins og ekkert hafi í skorist því mamma og pabbi eiga nógu bágt þó þau sitji ekki uppi með fúl og leiðinleg börn þegar allir eiga að vera glaðir.

Heima er best að gera sér ekki of miklar vonir um að jólin verði gleðileg, að það verði haldið upp á afmælið þitt eða að þið komist heim úr útilegunni án þess að eitthvað komi upp á. Það er best að búast við sem minnstu þá verða vonbrigðin minni ef allt fer í klessu.

Einmitt í dag eru þrjátíu og fjögur ár síðan Kvennaathvarfið var opnað og fyrsta konan flutti inn með syni sínum. Síðan þá hafa rúmlega þrjú þúsund og tvö hundruð börn dvalið í athvarfinu með mæðrum sínum þegar dvölin heima hefur verið þeim óbærileg vegna ofbeldis.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×