Lífið

Heilsu Expó í fyrsta sinn í áratug

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Adrian og Vigdís skipuleggja sýninguna á vegum Aðventkirkjunnar.
Adrian og Vigdís skipuleggja sýninguna á vegum Aðventkirkjunnar. Vísir/Andri Marínó
Vigdís Linda Jack er deildarstjóri heilsulindar hjá Aðventkirkjunni og hefur hún verið að skipuleggja ásamt Adrian Lopez, manni sínum, Heilsu Expó sem verður í gangi í haust. Markmiðið er að leggja áherslu á heilsuna og gefa fólki kost á að fara í alls konar mælingar ókeypis.

„Við erum að reyna að fá fólk til þess að taka heilsuna í sínar eigin hendur. Þetta mun heita Heilsu Haust 2015 og verður einu sinni í mánuði frá ágúst til nóvember. Ég held að þessi sýning eigi eftir að gera Íslendingum gott.“

Fyrsta sýningin verður nú á sunnudaginn í Hlíðardalssetrinu í Ölfusi og stendur frá klukkan tvö til fimm. Það er frítt inn og mælingar og upplýsingabæklingar eru fríir fyrir gesti og gangandi.

„Það eru 10 ár frá því að sýning í líkingu við þessa hefur verið hér á landi. Þetta er haldið út um allan heim og kominn tími til þess að halda heilsusýningu hér. Þetta verður sett þannig upp að það verða átta básar sem fólk mun labba um. Þeir snerta allir mismunandi viðfangsefni. Einn mun fjalla um næringu, annar um loft og enn annar um vatn og þar fram eftir götunum. Fólk getur farið í mælingu í hverjum bás fyrir sig. Við munum mæla súrefni, blóðþrýsting, blóðsykur og margt fleira.“

Sýningin á sér erlenda fyrirmynd en það eru aðeins íslendingar sem að koma að henni.Aðventkirkjan er í samstarfi við hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og lækna ásamt nokkrum fyrirtækjum sem munu lána ýmis tæki og tól til mælinga.

„Við erum búin að þýða alla bæklinga og plaköt á íslensku svo að þetta henti öllum. Við erum að gera þetta að okkar. Við verðum með fjórar sýningar en vonumst til að sjá sem flesta á sunnudaginn. Þetta er aðeins hálftíma bíltúr frá Reykjavík í Ölfus og auðvitað frítt inn.“

Sýningarnar seinna í haust verða í Hörpunni þann 6. september, Ráðhúsinu 4. október og Loftsalnum í Hólshrauni 3 þann 1. nóvember. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×