Skoðun

Heilsa og vellíðan starfsfólks borgarinnar

Ragnhildur Ísaksdóttir skrifar
Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður landsins þar sem að jafnaði starfa um átta þúsund manns. Verkefnin eru gríðarlega mörg og fjölbreytt en öll miða þau að því að gangverk borgarinnar haldi sínum eðlilega takti.

Góð viðverustjórnun er hluti af því að efla almenna heilsu borgarstarfsmanna og undanfarna mánuði hefur borgin unnið að því að móta nýja viðverustefnu. Viðverustefnan hefur þann megintilgang að samræma vinnuferla vegna fjarveru frá vinnu vegna veikinda, slysa eða áfalla um lengri eða skemmri tíma. Rauður þráður stefnunnar er að auka vellíðan starfsmanna og draga úr veikindafjarvistum.

Veikindahlutfall hjá borginni var 6,2% fyrstu sex mánuði ársins sem er hærra en á hinum almenna markaði. Það gerir samanburðinn flóknari að veikindaréttur þeirra sem vinna hjá hinu opinbera er meiri en þeirra sem starfa á einkamarkaði, en engu að síður er veikindahlutfall borgarstarfsmanna of hátt og við því þarf að bregðast.

Mikilvæg þjónusta

Borgin er einn vinnustaður, en starfsstöðvar borgarinnar eru margar og ólíkar. Hingað til hefur skráning veikindafjarvista ekki verið samræmd á öllum starfsstöðvum og einnig hefur skort samstillt viðbrögð. Með nýrri viðverustefnu verður tryggt að tekið sé á fjarvistum með samræmdum og sanngjörnum hætti. Stefnt er að því að með réttum viðbrögðum dragi úr fjarvistum. Vinna er þegar hafin við að koma á kerfisbundnum og reglulegum úttektum á fjarvistum. Mikilvægur hluti af innleiðingunni felur í sér þjálfun fyrir stjórnendur um hvernig stemma megi stigu við fjarvistum. Stjórnendur fá þannig aðstoð við að bregðast við með markvissari hætti og veita starfsfólki ráðleggingar varðandi úrræði. Einnig verður lögð áhersla á að styðja sem best við starfsmenn í veikindum og við endurkomu til vinnu, m. a. með því að finna leiðir til að aðstoða þá við að efla starfshæfni sína.

Starfsfólk borgarinnar sinnir gríðarlega mikilvægri þjónustu við barnafjölskyldur, aldraða, fatlað fólk og innflytjendur. Það sér um að auka umhverfisgæði, bæta samgöngur, mennta börnin, auðga menninguna – og áfram mætti lengi telja. Starfsemi borgarinnar er því afar umfangsmikil og Reykjavíkurborg ber ríka ábyrgð, bæði gagnvart borgarbúum og starfsfólki.

Stóra verkefnið fram undan er að greina stöðuna vandlega, áður en ályktun er dregin, því orsakir fyrir háu veikindahlutfalli geta verið mjög margar og mismunandi. Verkefnið er nýlega hafið og árangur ekki kominn í ljós. Sambærilegar viðverustefnur hafa skilað góðum árangri í nágrannalöndum okkar og má nefna sem dæmi að veikindafjarvistir í Billund fóru úr ríflega sjö prósentum í fjögur prósent við innleiðingu viðverustefnu.

Góð heilsa og vellíðan starfsfólks hefur jákvæð áhrif á þjónustuna sem borgin veitir – og það er sameiginlegur ávinningur okkar allra.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×