Lífið

Heillar hjörtu líkt og faðir hennar

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Dúettinn átti stórleik í jólaþætti danska ríkisútvarpsins á dögunum. Guðbjörg Tómasdóttir er hægra megin á myndinni.
Dúettinn átti stórleik í jólaþætti danska ríkisútvarpsins á dögunum. Guðbjörg Tómasdóttir er hægra megin á myndinni.
„Það var óvænt og ánægjulegt að vera beðin um að spila í jólaþætti Danmarks Radio og sérstakt, einnig fyrir þær sakir að þetta voru síðustu tónleikar UnderholningsOrkestret sem hefur starfað í 75 ár en á að leggja niður vegna sparnaðar“ segir Guðbjörg Tómasdóttir, annar meðlimur hins sænsk/íslenska dúetts My Bubba.

Dúettinn kom fram á samnorrænum tónleikum Danska ríkisútvarpsins sem voru sýndir í Sjónvarpinu í fyrrakvöld.

„Við vorum að spila með Damien Rice þegar við fengum fréttirnar og áttum að stíga á svið í hinu margrómaða Apollo Theatre í New York um kvöldið svo við höfðum ekki mikinn tíma til að hugsa um þetta. Við sögðum bara já,“ bætir Guðbjörg við.

Faðir Guðbjargar hefur mikið verið í umræðunni, en það er skurðlæknirinn og hvunndagshetjan Tómas Guðbjartsson, sem bjargaði með ótrúlegum hætti manni sem stunginn var í hjartað fyrir skömmu.

Hún segir föður sinn músíkalskan og mikinn tónlistarunnanda. „Það var alltaf mikil tónlist á heimilinu, allt frá poppi og djassi yfir í sex tíma tilfinningaþrungnar Wagneróperur,“ bætir Guðbjörg við.

„Ég var mikið með pabba á spítalanum þegar ég var yngri en ég valdi listirnar frekar,“ segir Guðbjörg spurð út í læknaáhugann. Feðginin ætla að dvelja í Ölpunum ásamt fjölskyldunni sinni yfir hátíðarnar en það er nóg fram undan á nýju ári hjá My Bubba. „Við erum að spila á hinni virtu hollensku tónlistarhátíðinni Eurosonic á næsta ári þar sem Ísland verður í forgrunni. Síðan erum við einnig að vinna við gerð nýrra plötu sem við munum taka upp ásamt pródúsentinum Shahzad Ismaily í í New York í byrjun næsta árs.“

My Bubba hefur átt annasamt ár og komið fram á fjölda tónleika víða um heim og meðal annars verið á tónleikaerðalagi með Damien Rice.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×