Innlent

Heildarútgjöld hins opinbera á háskólanema minnst hér

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Skýrslan sýnir að heildarútgjöld hins opinbera á hvern háskólanema eru ríflega helmingi lægri hér á landi en í Noregi.
Skýrslan sýnir að heildarútgjöld hins opinbera á hvern háskólanema eru ríflega helmingi lægri hér á landi en í Noregi.
Hið opinbera ver minnstum fjármunum á hvern nemenda á háskólastigi á Íslandi samanborið við hin OECD löndin. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD. Menntamálráðherra segir þetta mikið áhyggjuefni og að íslenskt háskólakerfi verði að vera sambærilegt því sem gerist á hinum Norðurlöndunum, annars ógni það efnahagslegri velferð þjóðarinnar.

Skýrslan sýnir að heildarútgjöld hins opinbera á hvern háskólanema eru ríflega helmingi lægri hér á landi en í Noregi. Íslenska ríkið ver ríflega 1,2 milljónum króna á hvern háskólanema en það norska ríflega 2,6 milljónum. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir þetta hættulega þróun.

„Þetta er kannski ekki alveg jafn slæmt og tölurnar gefa til kynna en það er samt sem áður ljós, og hefur legið fyrir um nokkra hríð, að framlag per nemenda í háskólakerfinu okkar er of lágt. Svarið er auðvitað einfalt, það vantar meiri fjármuni. Ef að við ætlum okkur í framtíðinni að geta staðið undir öllum þeim kostnaði sem hlýst af heilbrigðiskerfinu, samgöngum og öllu því sem við viljum gera í landinu, þá er lykillinn að því að geta gert það að fjárfesta í menntun núna,“ segir Illugi.

Í skýrslunni kemur einnig í ljós að Íslendingar útskrifast seinna úr háskólanámi en aðrir nemar OECD landa, og eyða þar af leiðandi skemmri tíma á vinnumarkaði. 

„Framleiðni á vinnustund er nokkuð lægri hér á Íslandi en í þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við um lífskjör. Það þýðir bara á mannamáli að við erum að vinna fleiri klukkustundir fyrir sömu verðmætum en aðrir gera. Þá bendir maður auðvitað á það að við erum að öllu jöfnu að klára seinna en aðrir að mennta okkur,“ segir Illugi.

Það sé ekki eðlilegt að við sem lítil þjóð eyðum minni peningum í menntun en nágrannalöndin.

„Efnahagsleg velferð þjóða byggir í sívaxandi mæli á menntun, rannsóknum og vísindum. Ef við ætlum hér á Íslandi að geta fylgt öðrum þjóðum í því að bjóða upp á góð lífskjör, þá verðum við líka um leið að bjóða okkar fólki upp á góða menntun,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×