Viðskipti innlent

Heildarmakrílkvóti Íslendinga 147.721 tonn

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Óskar
Heildarafli makríls fyrir árið 2014 verður 147.721 tonn, sem samsvarar um 16,6 prósentum af ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins. Sem er 889.886 tonn, en á heimasíðu Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins segir að það samræmist þeim kröfum sem Ísland hafði upp í samningaviðræðum um skiptingu kvótans.

Sigurður Ingi Jóhannesson, sjávarútvegsráðherra, segir að ákvörðun Íslands um veiði sýni að Íslendingar miði við og vilji stunda ábyrgar veiðar.

„Hér eftir sem hingað til munum við gera okkar allra besta til að ná sanngjörnum samningi um veiðar á makríl við öll hin strandríkin - en sá samningur mun ekki geta grundvallast veiðum langt umfram ráðgjöf vísindamanna. Heildaraflinn er í góðu samræmi við það sem við kröfðumst í samningaviðræðum um skiptingu kvótans,“ segir Sigurður Ingi.

Hann hefur einnig undirritað reglugerð um makrílveiðar íslenskra skipa árið 2014. Skipting leyfilegs heildarafla á milli skipaflokka skiptist þar svo:

Smábátar fá sex þúsund tonn. Ísfisksskip fá 7.917 tonn. Frystitogarar fá 30.682 tonn. Uppsjávarskip fá 103.121 tonn.

Að öðru leyti er gert ráð fyrir að fyrirkomulag veiðanna verði sambærilegt og í fyrra.

Þá segir einnig á vef ráðuneytisins að nýgerður makrílsamningur Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja geri ráð fyrir að heildarafli þjóðanna verði langt umfram heildarveiðiráðgjöf hafrannsóknaráðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×