Innlent

Heilbrigður lífsstíll besta forvörnin við Alzheimer

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Unnið er að því að finna forstig sjúkdómsins.
Unnið er að því að finna forstig sjúkdómsins.
Grípa þarf inn í áður en Alzheimer-sjúkdómur lætur á sér kræla, sagði Anton P. Þorsteinsson, taugalæknir og framkvæmdastjóri Alzheimer-rannsóknarsetursins við Háskólann í Rochester, á Læknadögum í Hörpu í dag. Hann vinnur nú að því, ásamt hópi fólks, að rannsaka hvernig greina megi sjúkdóminn á allra fyrstu stigum hans.

Snemmgreining skipti höfuðmáli

„Það sem virðist vera að skipti öllu máli er hvenær gripið er inn í. Það þarf að gerast nægilega snemma, á meðan við höfum enn svörun og áður en skaðinn er skeður,“ sagði Anton. Þær meðferðir sem nú séu til staðar séu þó afar mikilvægar. „Þær skipta máli. Meðferð í dag skiptir máli og það sem verið er að gera fyrir þessa sjúklinga skiptir máli. Þetta er langvarandi sjúkdómur sem þarf stuðning og meðferð.“

Um þrjár forvarnarrannsóknir er að ræða, sem Anton vinnur nú að. Sú stærsta er gerð í Bandaríkjunum og nær til um tíu þúsund manns, en hún kostar um fjörutíu milljónir Bandaríkjadala.

„Það sem virðist vera að skipti öllu máli er hvenær gripið er inn í. Það þarf að gerast nægilega snemma, á meðan við höfum enn svörun og áður en skaðinn er skeður."
Anton sagði að þrátt fyrir að engin lækning sé til við sjúkdómnum sé ýmislegt hægt að gera til að fyrirbyggja hann. Það sé meðal annars heilbrigður lífsstíll; hreyfing, hollt mataræði, engin eða hófleg áfengisdrykkja, góður svefn og menntun. Í áhættuhópi séu þeir sem reykja, eru þunglyndir, í yfirþyngd og lítið menntaðir, svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta sýnir bara hvað símenntun skiptir miklu máli,“ sagði hann.

Reyna að finna forstig sjúkdómsins

Steinunn Þórðardóttir öldunarlæknir flutti jafnframt erindi um Alzheimer. Hún talaði einnig um mikilvægi snemmgreiningu sjúkdómsins, en hún vinnur að doktorsrannsókn við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi þar sem rannsakað er hvort hægt sé að finna forstig Alzheimer.

Þá vinnur hún að rannsókn á einstaklingum með arfgengan Alzheimersjúkdóm, en hún hefur verið í gangi við Karolinska frá árinu 1992. Niðurstöðurnar benda til þess að færri en fimm prósent þeirra sem greinast með sjúkdóminn séu með fjölskyldulægan Alzheimer.


Tengdar fréttir

Gera þurfi betur í bólusetningum barna

Andstaða við bólusetningar hefur á undanförnum árum sótt í sig veðrið að nýju í öllum þróuðum ríkjum með skipulögðum hætti, segir Haraldur Briem




Fleiri fréttir

Sjá meira


×