Skoðun

Heilbrigðis­þjónustan í dag

Úrsúla Jünemann skrifar
Að vera með slitgigt er eitthvað sem fáir óska sér. Ekki er búið að finna lækningar við þessum sjúkdómi. En að minnsta kosti er hægt að skipta út liðamótum þegar brjóskið er orðið ónýtt. Margir þurfa að ganga undir svona liðskiptaaðgerð á mjöðm og hné á efri árum. Þar með lengist það tímabil sem menn geta notið lífsins án þess að þurfa stöðugt að glíma við slæma verki við hvert fótatak.

Fyrir 10 árum fékk ég nýja mjöðm og tveimur árum síðar fékk ég nýtt hné. Þetta voru stórar aðgerðir og endurhæfingin löng og ströng. En eftir það gat ég gert flest allt verkjalaust og nýtt og betra líf blasti við. Á þessum tíma var biðin eftir svona aðgerð um 3 mánuðir, þetta var eitthvað sem maður gat sætt sig við.

Í haust leitaði ég til læknis vegna vaxandi sársauka í hinni mjöðminni. Röntgenmyndir voru teknar og ekki fór milli mála að það kallaði á enn eina liðskiptaaðgerð (sem ég vissi þegar af fenginni reynslu). Þegar ég fékk bréf frá Landspítalanum rétt fyrir áramót með boð um að mæta hjá sérfræðingi núna í mars var ég mjög glöð og vonaðist að ég kæmist fljótlega í aðgerð.

Í dag 10.3. fór ég svo í viðtal hjá bæklunarsérfræðingi á Landspítala. Viðtalið tók varla meira en 5 mínútur og mér var tjáð að ég væri með slæmt slit ? sem ég vissi nú þegar ? og þyrfti að fara í aðgerð ? sem ég vissi líka. Og ég væri komin á biðlista og biðtíminn væri 8 mánuðir! Mér féllust hendur og það einasta sem ég gat sagt var: ?Ertu að grínast?? Fyrir þetta mátti ég greiða rúmlega 5.000 kr. Hefði ekki verið hægt að tilkynna mér um þessa 8 mánaða bið í síma eða bréfleiðis? Mér fannst að það væri verið að hafa mig að fífli og rukka mig fyrir einhverja ?þjónustu? sem kom mér ekki að gagni.

Lífsgæði mín munu vera verulega skert það sem eftir er af árinu. Ég mun halda mér gangandi með því að bryðja verkjatöflur. Ekki mun ég treysta mér til að fara í ferðalög með manninum mínum sem er óðum að ná sér eftir erfiða krabbameinsmeðferð og var farinn að hlakka til.

Ég er reið og svekkt. Við sem höfum unnið allt okkar líf og greitt samviskusamlega okkar skatta eigum ekki skilið að fá svona meðferð.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×