Innlent

Heilbrigðisráðherra veltir upp áhyggjum af byggingu einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var viðmælandi í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var viðmælandi í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Vísir/Anton Brink
„Það er atvinnufrelsi í landinu og við höfum hér samþykkt alþjóðlega samninga sem gera meðal annars kleift að byggja upp þjónustu á þessu sviði og raunar mörgum öðrum,“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Þar var umræðuefnið áætlanir MCPB hf. um að byggja einkasjúkrahús í Mosfellsbæ fyrir erlenda sjúklinga. Hann sagði jafnframt að ef slík uppbygging verði að veruleika verði hún að eiga sér stað í sátt við íslenskt heilbrigðiskerfi, heilbrigðisstarfsfólk og íslenskt samfélag.

„Þær fréttir og viðtöl sem af þessu hafa birst frá forsvarsmönnum verkefnisins eru þannig að það veldur manni nokkrum áhyggjum hvernig á að standa að þessu,“ sagði ráðherrann.

Aðspurður hvort stjórnvöld geti aðhafst eitthvað í málinu ef stofnunin uppfyllir skilyrði laga og reglugerða um heilbrigðisþjónustu segir ráðherrann að sjálfsagt mál að stjórnvöld komi að málinu ef fagaðilar telji að slík uppbygging geti ógnað innviðum heilbrigðisþjónustunnar. „Það eru atriði sem við þurfum að ræða og munum ræða við fyrsta tækifæri, ég og landlæknir,“ segir ráðherrann.

Áhyggjur af misskiptingu í heilbrigðiskerfinu

„Það veldur mér vissulega áhyggjum þegar maður heyrir í fyrsta lagi forsvarsmann verkefnisins lýsa því yfir að Íslendingar geti keypt sig þarna inn. Það þýðir að sú staða sé komin upp að efnahagur fólks ráði því hvaða aðgengi það hefur að þessari þjónustu.“

Þá segist Kristján það jafnframt áhyggjuefni að verkefnið sé nálgast með þeim hætti að 50 milljarðar séu lagðir í byggingakosntað og svo verði sótt um leyfi og gengið í skugga um það að unnt sé að fá leyfi fyrir starfseminni. „Þetta tel ég að gangi ekki þegar um er að ræða svona stórt verkefni,“ sagði ráðherrann. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við Kristján Þór í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×