Skoðun

Heilbrigð stjórnmál, valdaklíkur og öflugt atvinnulíf

Páll Valur Björnsson skrifar
Spilling er gamall og svarinn óvinur almennings. Hún felst í því að þeir sem vald hafa misbeita því í þágu sérhagsmuna sinna eða til að hygla ættingjum, vinum, pólitískum samherjum eða fyrirtækjum sem þeir eiga eða stýra. Spilling dafnar best í skjóli skoðanakúgunar og skerts tjáningarfrelsis. Ef fólk getur ekki sagt skoðanir sínar óhikað t.a.m. vegna ótta við að missa vinnuna eða tapa mikilvægum viðskiptum fá valdhafar í stjórnmálum og atvinnulífi ekki aðhald sem nauðsynlegt er til að halda spillingu niðri. Heiðarleg samkeppni þrífst afar illa í umhverfi þar sem tengingar, vinagreiðar og pólitísk velvild og óvild ráða miklu um hverjir fá og hverjir fá ekki.

Þar sem atvinnulíf er einhæft og flestir eiga atvinnu sína eða viðskipti sín undir fáum fyrirtækjum er mikil hætta á að óeðlilegar leikreglur myndist. Þar sem einstök fyrirtæki eru mjög stór í samanburði við byggðirnar og sveitarfélögin þar sem þau starfa, er mikil hætta á að þau fái í krafti stærðar sinnar völd og áhrif sem þau eiga ekki að hafa í lýðræðislegu samfélagi. Sú hætta eykst svo enn þegar sömu aðilar hafa einnig óeðlileg áhrif, beint eða óbeint, á þá sem fara með pólitískt vald í sveitarstjórnum eða á Alþingi. Fjölbreytni í atvinnulífi er mikilvæg af ýmsum ástæðum og ekki síst til að koma í veg fyrir að þetta gerist.

Spilling er mikil samfélagsleg meinsemd. Við verðum að hafa kjark til að takast á við hana með tiltækum ráðum ef við viljum búa í samfélagi sem gefur fólki og fyrirtækjum jöfn tækifæri. Höfum við nokkuð gleymt því strax sem stendur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um ástæður og afleiðingar hrunsins og í öðrum skýrslum og úttektum, s.s. um sparisjóðina, lífeyrissjóðina og Orkuveitu Reykjavíkur? Erum við ekki örugglega að gæta þess mjög vel að láta ekki valdaklíkur, persónulegar tengingar, vinagreiða og pólitíska velvild eða óvild hafa óeðlileg áhrif á hvað má og hvað má ekki, hverjir fá og hverjir ekki? Hverjir sitja í stjórnum hér og þar og eru ráðnir til stjórnunarstarfa? Höfum við ekki örugglega lært af reynslunni og öllu því marga og mikla sem aflaga fór svo víða í samfélaginu á árunum fyrir hrun?

Ef við gerum það ekki mun okkur ekki takast vel að byggja upp öflugt og fjölbreytt atvinnulíf og heilbrigt og ábyrgt fjármálakerfi. Þetta snýst um að gæta langtímahagsmuna í þágu alls almennings. Látum ekki sérhagsmuni, valdaklíkur og spillingu koma aftur í veg fyrir það.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×