Handbolti

Heiður að fá að aðstoða Alfreð

Alfreð í essinu sínu á hliðarlínunni.
Alfreð í essinu sínu á hliðarlínunni. vísir/getty
Alfreð Gíslason hefur aldrei verið mikið fyrir að deila ábyrgð með öðrum en nú hefur hann ákveðið að fá sér aðstoðarmann hjá Kiel.

Aðstoðarþjálfari Alfreðs heitir Jörn Uwe Lommel en Alfreð þekkir hann vel enda spiluðu þeir saman hjá TuSEM Essen í gamla daga. Þeir hafa haldið sambandi alla tíð síðan.

"Jörn er reyndur þjálfari og ég vildi fá einhvern sem gæti hjálpað mér strax. Það er nóg að gera næsta vetur í mörgum verkefnum og það má ekkert sofna á verðinum," sagði Alfreð Gíslason.

Lommel er eðlilega spenntur fyrir nýja starfinu.

"Þetta er mjög spennandi. Það er ekki ónýtt að fá að vinna með einum besta þjálfara heims," sagði Lommel en hann þjálfaði síðast árið 2012 en þá var hann með landslið Egyptalands.

"Ég er upp með mér að Alfreð hafi valið mig i þetta starf. Það er mikill heiður og ég get ekki hafnað þessu tilboði. Ég mun reyna að létta álaginu af Alfreð eins mikið og ég get gert."

Lommel byrjaði að þjálfa árið 1998 hjá TV Niederwürzbach og hefur einnig þjálfað TuSEM Essen, Nettelstedt, Grasshoppers og Füchse Berlin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×