Innlent

Heiðrún hlaut menningarverðlaun Akraness

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Heiðrún Hámundardóttir.
Heiðrún Hámundardóttir.
Heiðrún Hámundardóttir tónmenntakennari hlaut menningarverðlaun Akraneskaupstaðar árið 2014 en verðlaunin voru afhent nú síðdegis við upphaf Vökudaga, árlegrar menningarhátíðar Akraness. Menningarverðlaunin eru á ári hverju veitt einstaklingi eða hópi sem hefur á einhvern hátt skarað fram úr í menningarlífi Akraness, en Heiðrún hefur varið tíma sínum í að vinna með ungu fólki, kveikja áhuga þess og hvetja það áfram á tónlistarbrautinni.

Hún kennir í dag tónmennt við þrjá skóla, Tónlistarskólann á Akranesi, Brekkubæjarskóla og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þá hefur hún stofnað tónlistarbraut á unglingastigi, skipulagt Ungir-Gamlir þar sem tónlistarnemendur fá að spreyta sig með eldri átrúnaðargoðum sínum í tónlist og æfingum á sviði og haft umsjón með Hátónsbarkakeppni þar sem margir góðir söngvarar hafa stigið sín fyrstu skref. Þannig mætti lengi áfram telja.

„Ég er mjög þakklát fyrir þennan heiður, en það sem skiptir auðvitað mestu máli í svona starfi er fólkið sem vinnur með manni. Þá á ég bæði við samstarfsfólk og yfirmenn, en fyrst og fremst krakkana sjálfa en ég vinn mest með þeim,“ segir Heiðrún og bætir því við að mikil gróska sé í tónlistarlífinu á Akranesi. „Tónlistaráhuginn hjá unglingum er gífurlegur. Þau sækja til dæmis í að æfa sig sjálf í tónlistarstofunni eftir skóla og um helgar. Svo það er ljóst að framtíðin er björt.“

Sem fyrr segir voru Heiðrúnu afhent verðlaunin við upphaf menningarhátíðarinnar Vökudagar á Akranesi í dag. Hátíðin stendur í 10 daga en meðal viðburða eru leiksýningar, listsýningar, fjölmargir tónlistarviðburðir, krakkakaffi í Skökkinni nýju kaffihúsi Skagamanna, frumsýning heimildarmyndar og hin árlega þjóðahátíð Vesturlands þar sem verða til að mynda söngvarar frá Búlgaríu, Bollywood dansarar, ensk þjóðlagatónlist og afrískir trommarar.

„Heiðrún vinnur einstaklega óeigingjarnt starf. Hún hefur náð árangri með þolinmæði og ástríðu fyrir tónlist. Með þeirri elju kemst hún óvenjulega langt með viðfangsefnið. Árangur hennar er eftirtektarverður og til mikillar fyrirmyndar. Það er sönn ánægja fyrir menningarmálanefnd Akraneskaupstaðar að veita Heiðrúnu Hámundardóttur þessi heiðursverðlaun fyrir litríkt og taktfast starf í þágu menningar á Akranesi,“ segir í tilkynningu frá Akranesbæ.



Nánari upplýsingar um Vökudagana er að finna á Facebook síðu þeirra og á www.akranes.is.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×