Skoðun

Heiða Kristín og Óljós framtíð!

Þorvaldur Skúlason skrifar
„Lattelepjandi sjálfhverfar og umhverfisvænar 101 rottur sem hugsa bara um sig.” Svona einhvern veginn heyrði ég mann lýsa stjórnmálaaflinu Bjartri Framtíð. Hvort það er einhver sannleikur til í því skal ósagt látið í bili en þó er víst að sá sem þessi orð viðhafði í minni nærveru er ekki einn um að lýsa þeim þannig.

Fráfarandi formaður flokksins, Guðmundur Steingrímsson, sá ástæðu til þess að andmæla því í viðtali um daginn þegar sótt var að honum vegna fylgishruns BF og sá ástæðu til að taka fram að hann og flokkssystkini hans snérust um margt annað en að drekka latte í 101!

Og jú, ekki bara að vilja að breyta klukkunni til jafns við það sem hún ætti að vera. Undirritaður er reyndar sammála því. En það er líka það eina sem ég man eftir að BF hafi komið á framfæri á þessum tveimur árum síðan þau voru kosin á þing.

Ég ætla að leyfa mér að þessu sinni að koma fram minni tilfinningu sem ég hef fyrir því sem er gerast innan þessarar hreyfingar og minni upplifun sem gæti verið hvorki né. En kannski skárri en ekkert?

Mér finnst Guðmundur Steingrímsson, fráfarandi formaður, ræðumaður góður, vel gefinn og vel máli farinn. En ég held hann sé frekar latur og lítið um að athafnir fylgi orðum. Það er ekki nóg að kunna að tala og koma frá sér skilaboðum sem ná eyrum manns, en svo lítið um efndir og eftirfylgni. Kannski er hann of góðu vanur? Pabbi hans og afi þekktir stjórnmálamenn og fyrrverandi ráðherrar og hann alinn upp við að þurfa kannski svona mátulega lítið að hafa fyrir hlutunum þegar hann var yngri og kann kannski ekki að beita sér þannig lagað?

Það er kannski „skárr‘en ekkert“ að hann snúi sér alfarið að tónlistinni og leiki þar við hvurn sinn fingur og haldi nokkrar góðar Eldhúsdagsræður sem hann gerði svo mjög eftirminnilega síðasta vor svona til að halda sér við það sem eftir lifir kjörtímabilsins.

Hann hefur hæfileika Ronalds Reagan og Bills Clinton að geta talað og náð eyrum fólks en ekki hæfileika þeirra til að hrinda hlutum í framkvæmd og leiða stjórnmálahreyfingu að mínum dómi.

Þá komum við að Heiðu Kristínu Helgadóttur sem eins og segir á heimasíðu BF er fædd í Washington DC, sem skiptir í raun engu máli en kannski þykir það merkilegt.

Ja, hvað skal segja um hana? Hún kom eins og stormsveipur inn í umræðuna þegar enn ein könnunin var birt fyrr í sumar og BF við það að þurrkast út. Og samkvæmt könnun sem birt var í gær, 2.9.15, er hún með um 4% fylgi og fengi ekki mann kosinn. Já, þannig hefur staðan verið undanfarin misseri.

Hún vildi mæta á svæðið og taka til. Láta til sín taka og gaf það í skyn að það væri formennsku Guðmundar að kenna að fylgið hefði hrunið og hann þyrfti að axla þá ábyrgð og víkja sæti. Hún sagði jafnframt í útvarpsviðtali og sjálfsagt oftar að hún gæti vel hugsað sér að gefa kost á sér til formennsku því það þyrfti að breyta til. Hún væri kannski rétta manneskjan til þess. En svo var hún það ekki.

Þetta nefnilega snérist ekki um hana, var haft eftir henni á mjög svo japanskan kurteisimáta heldur um okkur öll hin og hún ætlaði nú að taka sæti varaþingmanns BF á komandi haustþingi sem hún hafði nokkurn veginn gefið frá sér þar sem hún virtist langt frá því að vera sátt við stöðu mála. En nú hefði allt breyst eftir að Guðmundur Steingríms hefði ákveðið að víkja og hún nú tilbúin að nýta krafta sína á Alþingi til styðja BF þar inni og alla aðra til góðra verka. Jahérna hér, þvílík heiðurskona þetta, ég hneigi mig til austurs og þakka Allah!

Mér finnst þetta algjör sýndarmennska af hennar hálfu. Hún vildi breyta til og fá menn til þess að víkja og svo gekk það eftir og sagt OK, hérna er keflið þitt, taktu við því. En, nei, þá kom það göfuga japanska svar um að þetta snérist ekki um hana heldur um allt annað og hún ætlaði sér alls ekki að koma nálægt því, sem ég held reyndar að sé rétt hjá henni því hún veit sem er kannski að hún er enginn leiðtogi.

Hún er kannski vön að skipuleggja grínið hjá Besta Flokknum/BF og halda utan um það en held hún yrði vonlaus formaður. Hún þorir heldur ekki að taka sénsinn um að ef það tekst ekki hjá henni að hífa upp fylgið og hún formaður, yrðu örlög hennar sennilegast þau sömu og Guðmundar Steingríms og því kannski betra að sitja í skjóli Alþingis og þykjast og vera svolítið „intellectual“ og taka því í raun enga ábyrgð á því sem hún byrjaði á. Það myndi sennilegast svona fjara undan henni sem og að menn tækju hana alvarlega svona ekki ósvipað og hennar innslag í Íslandi í dag á Stöð 2, semsagt vonlaust.

En um hvað snýst Björt eða Óljós Framtíð? Getur einhver sagt mér það? Fyrir hvað standa þau? Ég vitna til orða Óttarrs Proppé sem hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns sem ég held að séu miklu betri tíðindi heldur en ef Heiða Kristín hefði þóst ætla að axla þá ábyrgð. Hann segir:

„Ég hef óbilandi tröllatrú á erindi okkar. Það er þörf og eftirspurn eftir frjálslyndu, grænu og mannréttindasinnuðu stjórnmálaafli. Björt framtíð leggur áherslu á pólitíska siðbót og hefur staðfasta sýn á langtímahugsun og það að almannahagsmunir standi framar sérhagsmunum. Ég vil gera mitt í þessari baráttu. Ást, virðing og rokk og ról, Óttarr.“

Hann hefur þó tekið afstöðu til mála og haft skoðanir á því sem fram fer á Alþingi og mætt í pontu með nokkra ágætist punkta. En nokkrir ágætis punktar er ekki nóg í dag! Menn verða að þora að taka afstöðu og hafa skoðanir og fylgja þeim eftir. Standa fyrir eitthvað, vera með skýr skilaboð til fólks og hlusta eftir því sem kjósendum liggur mest á hjarta hverju sinni.

Endurspegla fólkið í landinu og áhyggjur þess. Það er ekki nóg að ætla að taka „samtal“ við þjóðina um kvótakerfið. Það þarf miklu skýrari og sterkari afstöðu ætli þessi Óljósa Framtíð að eiga nokkra möguleika í framtíðinni sem erindi við þjóðina. Það hafa aðrir flokkar séð um að taka þetta svokallaða „samtal“ og dregið fólk á asnaeyrunum lengi. Nú er þörf á aðgerðum, orðum verða nú að fylgja athafnir.

Sá tími er liðinn hjá latte flokknum á mæta á jazz á Kex hosteli og versla og drekka hjá Kormáki og Skildi. Nú verðið þið að hysja upp um ykkur brækurnar og sýna að þið eigið erindi fyrir utan menningu 101 Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×