Lífið

Hefur verið mikill úraperri alla sína tíð

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
FJÖLHÆFUR Tryggvi prófaði margt áður en hann heillaðist af úrsmíðinni og fann sig þar. Fréttablaðið/Vilhelm
FJÖLHÆFUR Tryggvi prófaði margt áður en hann heillaðist af úrsmíðinni og fann sig þar. Fréttablaðið/Vilhelm
Eftir að hafa farið í flugnám, flugumferðarstjórn og verið á sjó stóð Tryggvi Sigurbjörnsson á krossgötum en fyrir tilviljun endaði hann í úrsmíði í Sviss. „Ég var í Michelsen á Laugaveginum að kaupa mér úr og var að spjalla við Frank Michelsen úrsmið, sem eiginlega seldi mér hugmyndina um úrsmíði. Frank sagði mér að sonur sinn, Róbert, væri að kenna úrsmíði í Sviss og kom mér í samband við hann,“ segir hann.

Eftir að hafa spjallað við Róbert á Facebook um úrsmíði og tengda hluti, lagði hann fyrir Tryggva próf. „Það gekk vel og ég ákvað að skella mér til Sviss í alvöru inntökupróf, sem gekk vel og ég komst inn í skólann,“ segir hann, en skólinn, Korpela & Hofs Watchmaking Competence Centre, tekur ekki marga nemendur inn og voru þeir aðeins þrír í hverjum bekk, en Tryggvi var einn af þremur nemendum Róberts.

Tryggvi lét framleiða nokkur svona úr fyrir sig.Vísir/Baldvin Þeyr Pétursson
Að smíða úrverk er ekkert grín og segir Tryggvi að flestöll úrafyrirtæki noti tölvustýrðar fræsivélar og rennibekki til þess að smíða partana.

„Úrsmiðirnir fá svo partana úr vélunum og pússa þá til, skreyta og raða saman verkinu. Einfalt úr getur verið samsett úr um 100 pörtum. Flóknustu úrin geta verið samsett úr yfir 1.000 pörtum. Þetta er gríðarlega mikil nákvæmnisvinna og það munar oft bara einum hundraðasta úr millimetra hvort hluturinn passar. Í skólanum notumst við ekki við tölvustýrðar CNC-vélar, eingöngu handstýrðar klassískar vélar. Maður var bara með stækkunarglerið á sér allan daginn,“ segir hann og hlær.

Tryggvi segist alltaf hafa verið mikill áhugamaður um úr. „Ég hef alltaf verið mikill úraperri. Þegar ég var yngri þá var ég alltaf að rífa allt í sundur. Svo var ég í málmsmíði í VMA og þar kynntist ég því að pússa og nota rennibekk, þó sú vinna hafi vissulega ekki verið eins fíngerð.“ 

Úrvirki sem hann smíðaði frá grunni.Vísir/Baldvin Þeyr Pétursson
Það er mikið þolinmæðisverk að smíða úr og ef það er gert alveg frá grunni getur það tekið allt að tvö til þrjú ár fyrir einn einstakling. „Ég var einu sinni búinn að vera mánuð að smíða einn hlut í skólaúrið mitt. Svo rak ég mig í hann og hann beyglaðist og eyðilagðist,“ segir Tryggvi.

Hann segist hafa blótað því aðeins, en hafist svo handa við að gera annan. „Þannig lærði ég bara og varð þar af leiðandi betri í að gera þetta í annað sinn.“

Tryggvi hannaði og lét framleiða nokkur úr fyrir sig, sem eru undir íslenskum áhrifum. „Vísarnir eru eins og sverð, skífurnar eru gerðar úr hvalskíðum og ólarnar úr hlýraroði. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi notað hval í úrsmíði áður,“ segir hann stoltur af hönnun sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×