Lífið

Hefur unnið í þrettán Facebook-leikjum frá því í desember

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Guðrún Benediktsdóttir er hér alsæl með hluta vinninganna sem hún hefur unnið. Hér er hún með snyrtitösku og vítamínpakka sem hún vann í Facebook-leikjum fyrir skömmu.
Guðrún Benediktsdóttir er hér alsæl með hluta vinninganna sem hún hefur unnið. Hér er hún með snyrtitösku og vítamínpakka sem hún vann í Facebook-leikjum fyrir skömmu. fréttablaðið/anton brink
„Auðvitað er þetta heppni,“ segir hin fimmtuga Guðrún Benediktsdóttir en hún hefur nú unnið hvorki fleiri né færri en þrettán vinninga í hinum ýmsu Facebook-­leikjum síðan í desember. Hún tekur þátt í öllum leikjum sem hún finnur en nennir samt ekki neinu veseni. „Ég tek bara þátt þegar ég þarf að kvitta og deila eða læka.“

Hún fékk snjallsíma í desember og byrjaði strax í kjölfarið að taka þátt í Facebook-leikjunum og sér svo sannarlega ekki eftir því. Hún hefur unnið vinninga sem eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir. „Ég hef unnið meðal annars dáleiðslumeðferð, út að borða, súrmat, límmiða til að líma á vegg í barnaherbergi, skartgripi, snyrtidót og ég veit ekki hvað og hvað. Ég þarf að fara skrifa þetta niður svo ég muni þetta,“ segir Guðrún og hlær.

Hún hvetur fólk til þess að taka þátt í Facebook-leikjum en hún hafði áður heyrt fólk tauta yfir því að það væri hreinlega ekki hægt að vinna í leikjum sem þessum. „Fólk hefur verið að tauta yfir því að þetta sé bara plat og djók og það sé ekki hægt að vinna en ég hef náð að afsanna það,“ bætir Guðrún við. Þess má til gamans geta að hún var nýbúin að vinna vítamínpakka í einum Facebook-leiknum þegar blaðamaður náði tali að henni.

Þegar fólk tekur þátt í leikjum sem þessum er það yfirleitt frekar fjarstæðukenndur draumur að vinna í þeim, enda oft ansi margir sem taka þátt og líkurnar á að maður vinni alls ekki yfirþyrmandi. Í sumar komst hins vegar stúlka í fréttirnar þar sem hún þótti hafa verið einkar heppinn í að vinna í Facebook-leikjum og því áhugavert að sjá að lukkan leikur við fleiri einstaklinga í leikjunum, enda vinningurinn oftar en ekki fjarstæðukenndur draumur.

Spurð út í hvaða vinningur hafa kætt hana mest segist hún muna eftir einu atviki sem hafi verið sérlega skemmtilegt. „Útvarpsmenn á Suðurland FM hringdu í mig í beinni útsendingu til að tilkynna mér að ég hefði unnið í leik hjá sér en það vildi svo skemmtilega til að ég átti afmæli þann dag. Þá vann ég fulla snyrtitösku af Estée Lauder-snyrtivörum sem var mjög skemmtilegt og lífgaði heldur betur upp á afmælisdaginn,“ útskýrir Guðrún létt í lundu.

Það er gömul mýta sem segir að þeir sem heppnir eru í spilum séu óheppnir í ástum en hefur þessi mikla heppni í Facebook-leikjum haft áhrif á ástarmál Guðrúnar? „Ég er því miður mjög óheppin í ástum þannig að það er pínu sannleikur í þessari mýtu, allavega í mínu tilfelli,“ segir Guðrún og glottir. Hún er þó bjartsýn á að hún lokki ástarlukkudísirnar á sitt band á næstunni.

Guðrún ætlar þó engan veginn að hætta að taka þátt í Facebook-leikjum og var einmitt að ljúka við að kvitta og deila í einum leiknum enn þegar blaðamaður talaði við hana.

Þeir vinningar sem Guðrún hefur unnið:

Hálsmenn og eyrnarlokkar

Dáleiðslunámskeið

Sex skotglös

Þrjár fötur af súrmat

Stærsta flugeldatertan frá Björgunarsveitinni í Kópavogi um áramótin

Límmiðaborði til að setja á vegg í barnaherbergi

Námskeið á vegum Game Tíví í tölvuleikjaspilun

Út að borða á Ginger

Tveir bíómiðar í Smárabíói

Hamborgaraveisla á Hamborgarabúllu Tómasar

Snyrtivörutaska full af snyrtivörum frá Estée Lauder 

Tvisvar sinnum unnið vítamínpakka


Tengdar fréttir

Getur ekki hætt að vinna í Facebook-leikjum

Verslunareigandinn Erna Margrét Oddsdóttir hefur vakið athygli fyrir það hve heppin hún hefur verið í hinum ýmsu Facebook-leikjum. Tekur tarnir í leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×