Fótbolti

Hefur Sheikh Ahmad snúið baki við Blatter? | Gæti breytt forsetakjörinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hefur Sheikh Ahmad snúið baki við Sepp Blatter?
Hefur Sheikh Ahmad snúið baki við Sepp Blatter? vísir/getty
Sem kunnugt er verður kosið til forseta FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, í dag. Tveir eru í framboði, Sepp Blatter og Prins Ali bin Hussein, en búist er við spennandi kosningu.

Sjá einnig: Hver er prinsinn sem vill verða FIFA-kóngur?

Michel Platini, forseti UEFA, hefur lýst yfir stuðningi við Prins Ali og rær nú öllum árum að því að Jórdaníuprinsinn verði kosinn.

Í gærkvöldi sást Platini á fundi með ýmsum framámönnum fótboltans á bar hótelsins Baur au Lac í Zürich í Sviss þar sem ársþing FIFA fer fram í dag.

Meðal þeirra sem Platini sást ræða við er Sheikh Ahmad Al-Fahad Al-Sabah frá Kúveit sem hefur í gegnum tíðina verið mikill stuðningsmaður Blatters. Það eru því allar líkur á að forsetakjörið í dag hafi verið til umræðu þar.

Auk Platinis og Sheikhs Ahmad voru aðrir valdamiklir einstaklingar í asískum fótbolta á fundinum en nánar má lesa um hann hér.

Sheikh Ahmad er áhrifamaður í asískum fótbolta og asískum íþróttum yfirhöfuð. Hann hjálpaði m.a. Sheikh Salman, öðrum dyggum stuðningsmanni Blatters, að ná kjöri til forseta knattspyrnusambands Asíu. Sheikh Ahmad situr einnig í framkvæmdanefnd FIFA.

Hafi Sheikh Ahmad snúið baki við Blatter er það heldur betur vatn á myllu Prins Ali og gæti breytt landslaginu í forsetakjörinu. Aðildarþjóðir FIFA eru 209 en hver þjóð hefur eitt atkvæði. 105 atkvæði þarf til að vinna kosninguna.

Platini sagði á blaðamannafundi í gær að Prins Ali væri öruggur með 45-46 atkvæði frá UEFA en auk þess telur Prinsinn að hann hafi 60 atkvæði utan Evrópu. Hafi Sheik Ahmad ákveðið að styðja Prins Ali gæti sú tala hækkað umtalsvert.


Tengdar fréttir

Geir um handtökurnar: Mikið áfall fyrir knattspyrnuhreyfinguna

„Á þessari stundu veit ég ekkert meira en það sem hefur komið fram í fjölmiðlum,“ sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, í samtali við Guðjón Guðmundsson, aðspurður um handtökur á sjö hátt settum stjórnarmönnum FIFA í nótt. Mennirnir sem um ræðir voru ákærðir í Bandaríkjunum en þeir eru sakaðir um spillingu; peningaþvætti og mútustarfsemi.

Hver er prinsinn sem vill verða FIFA-kóngur?

Forsetakjör FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, fer fram í dag. Hinn þaulsætni Sepp Blatter sækist eftir endurkjöri en í vegi hans stendur Ali bin Hussein Jórdaníuprins.

Blatter lét henda frammíköllurum út úr salnum

Sepp Blatter, forseti FIFA, hélt opnunarræðu á ársþingi FIFA í morgun en framundan eru hinar umdeildu forsetakosningar þar sem að Blatter sækist eftir sínum fimmta kjörtímabili.

Forsetakjör FIFA fer fram

Walter De Gregorio, fjölmiðlafulltrúi FIFA, segir líklegt að kosningarnar til forseta sambandsins fari fram á föstudaginn þrátt fyrir aðgerðir svissnesku lögreglunnar í nótt, þar sem sex háttsettir stjórnarmenn FIFA voru handteknir í Zürich.

Meint mútuþægni hjá toppum FIFA nær aftur til 1990

Bandarísk yfirvöld ákæra níu yfirmenn FIFA. Þeirra á meðal er varaforseti FIFA, Jeffrey Webb. Sepp Blatter, forseti FIFA, er ekki á meðal hinna ákærðu. Fjölmiðlafulltrúi FIFA segir sambandið fórnarlamb málsins.

Geir kallar eftir breytingum innan FIFA: Þetta er óþolandi staða

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, fundaði í dag með öðrum þjóðum innan UEFA, og niðurstaða fundarins var að öll aðildarlönd UEFA ætla að styðja jórdanska prinsinn Ali bin al Hussein á móti Sepp Blatter í forsetakosningum FIFA.

Segir að Sepp Blatter verði að fara

Framkvæmdastjóri Enska fótboltasambandsins segir ómögulegt að byggja aftur upp traust FIFA á meðan Blatter sé við stjórnvölin.

Geir og félagar snúa baki við Sepp Blatter

Knattspyrnusamband Evrópu var eina álfusambandið sem vildi fresta forsetkosningum FIFA vegna handtakanna í Zurich í gær en aðildarlönd UEFA ætla samt sem áður að taka þátt í kosningunni.

Forseti FIFA kjörinn í dag

Kjörið stendur á milli á sitjandi forseta sambandsins Sepp Blatter og Ali bin al-Hussein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×