Innlent

Hefur fulla trú á að Ólafur Ragnar aðhafist í máli al-Nimr

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá fundi Hrafns og forseta á Bessastöðum í dag.
Frá fundi Hrafns og forseta á Bessastöðum í dag. Mynd/Jón Grétar Magnússon
„Þetta snýst auðvitað um prinsipp en líka um að raddir allra skipta máli,“ segir Hrafn Jökulsson rithöfundur sem fundaði með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, á Bessastöðum síðdegis í dag og afhenti honum áskorun um að beita sér í máli ungs manns sem bíður aftöku í Sádi-Arabíu.

Nærri tvö þúsund manns höfðu í dag skrifað undir áskorunina á netinu þar sem biðlað er til forseta að koma á framfæri við ráðamenn í Sádi-Arabíu „andstyggð og hryggð“ vegna dauðadómsins yfir manninum og að biðja honum griða.

„Forseti gaf sér góðan tíma til að ræða þetta mál og við áttum um klukkutíma langan fund,“ segir Hrafn. „Ég kom sjónarmiðum okkar sem eru að beita okkur í málinu áleiðis og lagði áherslu á að það mætti engan tíma missa. Þessi aftaka getur farið fram hvenær sem er.“

Ali-al Nimr.Vísir
Dæmdur til dauða sautján ára

Ungi maðurinn sem bíður aftöku heitir Ali al-Nimr og var handtekinn í heimalandi sínu og dæmdur til dauða fyrir að mótmæla kúgun stjórnvalda árið 2012. Hann var þá aðeins sautján ára.

Dómurinn hefur vakið athygli víða um heim og hafa þjóðarleiðtogar á borð við Francois Hollande Frakklandsforseta kallað eftir því að lífi hans verði þyrmt. Þá tók Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra undir með þeim á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku.

Hrafn segir forseta hafa kynnt sér málið og að þeir hafi rætt það hvort og hvernig Ísland gæti beitt sér í því. Hrafn segist ekki endilega eiga von á að afskipti Íslendinga ráði úrslitum en sjálfra okkar vegna verði þjóðin að leggja lóð sín á vogarskálarnar í málum sem þessu.

„Ég hef fulla trú á forseta okkar í þessu máli,“ segir hann. „Ég verð að vísa því til hans hvort og hvenær hann aðhefst í málinu en ég hef fulla trú á því að forseti verði við þessu ákalli. Sádi-Arabía, og refsikerfið þar, hefur allt of lengi verið stikkfrí á Vesturlöndum vegna olíu sem þaðan kemur.“

Mál Ali al-Nimr rætt á Bessastöðum. Í dag fékk Ólafur Ragnar forseti afhenta áskorun frá um 2000 Íslendingum, sem biðja...

Posted by Hrafn Jökulsson on 5. október 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×