Lífið

Hefur aldrei spilað á skvísustað

Baldvin Þormóðsson skrifar
Birkir Blær hefur spilað tónlist frá blautu barnsbeini.
Birkir Blær hefur spilað tónlist frá blautu barnsbeini. mynd/aðsend
„Þetta er svona konsept sem þeir á Loftinu eru búnir að vera með í sumar þar sem þeir leiða saman mjög flinka tónlistarmenn og plötusnúða,“ segir saxófónleikarinn Birkir Blær Ingólfsson en hann kemur fram á Bít-kvöldi á Loftinu í kvöld ásamt gítarleikaranum Hrafnkeli Gauta og plötusnúðinum Andrési Nielsen.

„Andrés varpar sem sagt fram einhvers konar takti og við dettum í gír og reynum að spila yfir taktinn og gera eitthvað frumlegt,“ segir Birkir. „Síðan vonum við bara það besta, við verðum líka þarna á kantinum með hristur og að hafa gaman.“

Birkir Blær er vanur saxófónleikari en spilar djass alla mánudaga á Húrra ásamt sveitinni Bravissimo.

„Persónulega hef ég samt aldrei spilað á stað þar sem allir eru svona miklar skvísur,“ segir Birkir og hlær en þá á hann við Loftið. „Þannig að ég ætla bara að reyna mitt besta til að vera skvísa líka og vera í stuði.“

BÍT-kvöldið hefst klukkan 22 á Loftinu og verður Tanguray Ten á tilboðsverði fyrir þá sem þyrstir í meira en dansinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×