Lífið

Hebbi edrú í átta ár

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson segir ákvörðunina um að verða edrú þá bestu sem hann hefur tekið í sínu lífi.
Tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson segir ákvörðunina um að verða edrú þá bestu sem hann hefur tekið í sínu lífi.
„Lífið hefur gerbreyst, þetta er bara nýtt líf. Það hefur allt farið upp á við, tónlistarlega séð, það er meira að gera og ég er bara mjög sáttur við alla, við guð og menn eins og menn segja,“ segir tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson. Í dag fagnar hann því að hann hefur verið laus við áfengi og fíkniefni í átta ár. „Ég hugsa að ég fari bara út að borða með syni mínum og við skálum í vatni,“ segir Herbert spurður út í hvort hann ætli að gera eitthvað af því tilefni.

„Ég veit ekki af hverju ég hætti, það kom bara einhver vakning yfir mig þegar ég vaknaði einn daginn og ég hringdi upp á Vog, fór í afeitrun og svo bara beint í 12 spora kerfið,“ segir Herbert spurður út í upphaf edrúmennskunnar.

Herbert hefur verið þekktur fyrir mikla lífsgleði og segir ákvörðunina um að verða edrú vera bestu ákvörðun lífs síns. „Þegar ég var orðinn edrú byrjaði ég á að gera upp við fólk og fór, eins menn segja, að taka til í rústum fortíðarinnar. Þegar maður er í neyslu er maður með hausinn uppi í rassgatinu á sjálfum sér,“ útskýrir Herbert. Hann segir 12 sporin hafa hjálpað sér mjög mikið.

Herbert er þekktur fyrir mikla lífsgleði og skapar tónlist af miklu kappi. Nýtt efni er væntnalegt frá Hebba.vísir/gva
„Lykillinn eru 12 sporin en fyrsta sporið er að menn gefist upp með báðum höndum. Þetta er eins og að skræla lauk. Maður fer og hittir fólk og biðst afsökunar, ef maður hefur breytt ranglega og þess háttar. Það er svo mikilvægt að fara í gegnum fyrirgefningarferlið.“

Hann segir menn öðlast nýja lífssýn þegar þeir herja á beinu brautina. „Maður fer að hugsa um að gefa eitthvað af sér. Ég hef verið að reyna að gefa af mér, það er svo mikið af fólki sem líður illa þarna úti og er einmana og er í neyslu. Ég vil hjálpa fólki, fólk má hringja í mig,“ útskýrir hann.

Herbert segist aldrei hafa haft jafn mikið að gera og í dag og var einmitt á leið upp í Grímsnes að spila fyrir hjálparsamtökin Bergmál ásamt Hirti Howser þegar blaðamaður náði tali af honum. 

Um þessar mundir er hann einnig að vinna að nýju efni og stefnir á að koma nýju lagi í spilun í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×