Handbolti

HBStatz: 32 prósent munur á skotnýtingu Bjarka og Guðjóns Val úr vinstra horninu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Már Elísson og Guðjón Valur Sigurðsson.
Bjarki Már Elísson og Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Samsett/EPA og Getty
Bjarki Már Elísson var miklu betri í vinstra horninu en Guðjón Valur Sigurðsson á HM í handbolta í Frakklandi þegar kemur að fjölda marka eða skotnýtingu

Vinstri hornamennirnir Guðjón Valur Sigurðsson og Bjarki Már Elísson voru tveir af þremur markahæstu mönnum íslenska landsliðsins á HM í handbolta í Frakklandi.

HBStatz tók saman ítarlega tölfræði á heimsmeistaramótinu og hefur nú birt samanburð á skotnýtingu þeirra Guðjóns Vals og Bjarka Más.

Það vekur athygli að Bjarki tekur átta fleiri skot úr vinstra horninu og hann nýtir líka skotin sín 32 prósent betur úr sinni stöðu.

Bjarki Már Elísson skoraði úr 23 af 29 skotum sínum sem gerir 79 prósent skotnýtingu. Hann tók öll skotin sín utan af velli.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 24 mörk úr 38 skotum sem gerir 63 prósent skotnýtingu. Sjö af mörkum Guðjón Vals komu af vítalínunni en hann nýtti 70 prósent víta sinna og því „bara“ 61 prósent skota sinna utan af velli.

Samanburður á skotum þeirra úr vinstra horninu vekur mesta athygli. Bjarki Már nýtir 13 af 18 skotum sínum úr vinstra horninu eða 72 prósent. Guðjón Valur er aftur á móti með aðeins 10 skot og 40 prósent skotnýtingu úr vinstra horninu.

Bjarki Már er að skora níu fleiri mörk úr vinstra horninu heldur en Guðjón Valur þrátt fyrir að spila 83 færri mínútur (135:35) en Guðjón Valur (218:55).

Guðjón Valur Sigurðsson og Bjarki Már Elísson eru báðir með 86 prósent skotnýtingu úr hraðaupphlaupum en Guðjón Valur er með tvöfalt fleiri mörk úr hraðaupphlaupum (12) en Bjarki (6) samkvæmt skráningu HBStatz.


Tengdar fréttir

Guðjón: Mjög jákvæður á framhaldið

"Það er auðvitað leiðinlegt að þetta sé búið en ég er ótrulega ánægður og stoltur af strákunum,“ segir landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson eftir tapið gegn Frökkum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×