Erlent

Hávaxnasti maður heims látinn

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Stadnyk var talinn vera 253 sentímetrar á hæð. Hér stendur hann við hliðina á manni sem er um 180 sentímetrar.
Stadnyk var talinn vera 253 sentímetrar á hæð. Hér stendur hann við hliðina á manni sem er um 180 sentímetrar. Vísir/AFP
Úkraínskur maður sem er talinn vera sá hávaxnasti í heimi lést í gær, 44 ára að aldri. Banameinið var heilablæðing, en maðurinn, sem heitir Leonid Stadnyk, glímdi við ýmis heilsufarsleg vandamál alla ævi.

Stadnyk vildi ekki leyfa aðilum frá Heimsmetabók Guinness að mæla sig en talið er að hann hafi verið 253 sentímetrar á hæð. „Að mínu mati er hæð mín einkonar bölvun. Ég veit ekki hvað ég gerði Guði til þess að þurfa að vera svona. Ég hef alltaf þráð að fá að vera eins og aðrir. Ég veit að ég er hávaxnasti maður heims, en mér finnst ég samt bjargarlaus. Þetta líf er fyrir lágvaxið fólk,“ sagði hann á sínum tíma og bætti við:

„Ég vil ekki verða frægur fyrir hæð mína og því hef ég enga löngun til þess að vera í þessari heimsmetabók.“

Stadnyk sagðist ekki vilja gera kvenmanni það að vera með sér og forðaðist samband við hitt kynið alla ævi.

Fætur Stadnyk voru 45,7 sentímetrar á lengd og þurfti hann að nota sérhannaða skó. Lófar hans voru um þrjátíu sentímetrar í þvermál. Stadnyk var bóndi en var menntaður dýralæknir. Ferill hans sem dýralæknir komst þó aldrei á flug. Hann þurfti að hætta vegna þess að það var erfitt fyrir hann að fá nauðsynlegan hlífðarfatnað í réttum stærðum. Hann sagði að það hafi verið erfitt að vera bóndi. „Að reyta arfa er afar erfitt þegar maður er jafn hávaxinn og ég,“ sagði hann.

Í frétt um Stadnyk á vefsíðu breska miðilsins Mirror er sagt frá ferðlagi hans til Þýskalands, en hann ferðaðist afar lítið um ævina. „Það var ótrúlega gaman að koma þangað og sjá landið, en mér leið svolítið eins og geimveru,“ sagði hann. Þar í landi gekk illa að finna nógu stórt rúm fyrir Stadnyk og þurfti hann að sofa á billiard-borði.

Nágrannar hans sögðu hann hafa verið afar góðhjartaðan mann, sem var alltaf tilbúinn að aðstoða náungann. „Hann var einn gjafmildasti og yndislegasti maður sem ég hef kynnst. Hann var góð sál,“ sagði einn nágranna Stadnyk.

Hér að neðan má sjá myndband þar sem Stadnyk tjáir sig um lífið sem hávaxnasti maður heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×