Innlent

Hávær kona handtekin í Vesturbænum

Jakob Bjarnar skrifar
Engu tauti var komið við hina háværu konu og lauk viðskiptum hennar og lögreglu með því að hún var vistuð í fangageymslu við Hverfisgötu.
Engu tauti var komið við hina háværu konu og lauk viðskiptum hennar og lögreglu með því að hún var vistuð í fangageymslu við Hverfisgötu.
Í nótt, skömmu fyrir klukkan þrjú, barst lögreglu tilkynning um háværa konu sem var að reyna að komast inn í bílskúr við hús í Vesturbænum. Lögreglumenn mættu á svæðið og ræddu við háværu konuna sem þá var búin að vekja fólk í nærliggjandi húsum með látum. Sljákkaði í konunni sem lofaði öllu fögru og sagðist ætla að hafa sig hæga en ekki var mikið um efndir því lögreglumenn þurftu skömmu síðar að sinna öðru útkalli, aftur vegna háreista og láta í þessari sömu konu. Hún neitaði þá að gefa upp nafn og hvar hún byggi. Að lokum var hún færð á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hún var vistuð í fangageymslu.

Þá greinir frá því, í skeyti frá lögreglu, að lögreglumenn hafi verið á eftirlitsferð í nótt um klukkan hálffjögur, og komu þá að manni þar sem hann var að taka dekk undan bifreið skammt frá bifreiðaumboði á Höfðanum. Var hann búinn að taka þrjú dekk undan bifreiðinni þegar lögreglumenn trufluðu hann við verkið. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×