Lífið

Haust í einum rjúkandi bolla

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Hvað er haustlegra en þetta, ég bara spyr?
Hvað er haustlegra en þetta, ég bara spyr?
Haustið er sú árstíð sem mörgum, sér í lagi hér á landi, líkar ekkert sérstaklega vel við – sumarið endar, vetur á leiðinni, skólarnir byrja aftur og lítið gerist allt fram að jólum. En það eru ekki allir sem bera þessar tilfinningar til haustsins – þvert á móti er haustið árstíðin þar sem allt gerist. Ófá ljóðin hafa verið skrifuð um gulnandi lauf, kosningar eru í nánd bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum og síðan eru það auðvitað ylvolgir bollar af pumpkin spice latte sem margir bíða eftir af mikilli eftirvæntingu.

Margir klóra sér vafalaust í höfðinu og spyrja sig hvaða fyrirbæri pumpkin spice latte sé eiginlega og því verður svarað hér. Pumpkin spice latte er uppfinning stórfyrirtækisins Starbucks og af mörgum kölluð ein snjallasta markaðssetning síðari tíma. Starbucks ákvað sem sagt árið 2003 að búa til haustdrykk og brúa bilið frá sumri til jóla, en fyrirtækið bauð upp sumarþema og jólaþema. Drykkurinn er gerður úr týpískum „haustkryddum“ en innihélt þó ekki grasker fyrst um sinn, en því var fyrst bætt við á síðasta ári. Strax fyrsta árið sló drykkurinn gjörsamlega í gegn og hefur í mörgum löndum, sérstaklega þó Bandaríkjunum, orðið ákveðið menningarfyrirbrigði.

Kristjana Zoëga, flugfreyja og PSL aðdáandi.Vísir/Anton Brink
Íslenskir aðdáendur graskers­lattesins

Drykkurinn er mjög nýlega kominn til Íslands en á sér þó nokkra aðdáendur sem hafa smakkað hann á ferðalögum sínum erlendis. Ein þeirra er Kristjana Zoëga, en hún er flugfreyja og kemur því víða við starfs síns vegna og er ýmsum hnútum kunnug. Hjá henni byrjar haustið ekki fyrr en hún fær sér einn PSL.

„Þegar það fer að dimma á kvöldin í lok sumars byrja ég að finna fyrir eftirvæntingu eftir að fá mér fyrsta pumpkin spice latte haustsins. Ég veit fátt betra en að rölta á kaffihús að hausti til, kaupa mér PSL og drekka hann á meðan ég rölti um bæinn með stóran trefil til að hlýja mér í. PSL er eins og að fá sér haust í bolla, dásamlegt!“

Una Hildardóttir smakkaði Pumpkin spice latte í ferðum sínum erlendis og varð gjörsamlega forfallinn aðdáandi í kjölfarið.
Una Hildardóttir er mikill aðdáandi PSL, svo mikill raunar að hún brá á það ráð að búa sér til sitt eigið krydd­síróp vegna áralangs PSL-leysis hér á landi. En hvar skyldi hún fyrst hafa kynnst þessum dásamlega haustdrykk?

„Ég var einu sinni á UNR-þingi, það er Ungdommens Nordiske Råd, sem er alltaf í október og það var 50% afsláttur af pumpkin spice latte hjá Starbucks því að það var Halloween. Ég var svo hrifin að ég keypti mér strax annan – þannig að ég fékk mér tvo sama daginn og þá varð bara ekki aftur snúið. Núna er alltaf það fyrsta sem ég geri þegar ég fer til útlanda, eins ömurlegt og það er að versla við stórfyrirtæki eins og Starbucks, er að kaupa einn pumpkin spice latte.

Síðan mun ég aldrei gleyma því þegar ég var í Bandaríkjunum og var að fljúga 1. janúar, bara um áramótin, og bað um einn pumpkin spice latte og gellan sem var að afgreiða mig var alveg „excuse me, the holiday season is over!“,“ segir Una en hún þarf ekki að hafa áhyggjur af því að vera neitað aftur um þennan gómsæta drykk enda uppskriftin sáraeinföld og deilir hún henni með okkur hér:

Pumpkin spice latte sýróp

„Ég fann út hver kryddblandan er og var úti í Barcelona þar sem ég keypti all spice, sem ég fann ekki á Íslandi, og bjó til kryddsíróp úr þeim kryddum sem í því eiga að vera.“



 

3 msk. kanill

2 tsk. engifer

2 tsk. múskat

1 1/2 tsk. all spice

1 1/2 tsk. negull

500 g sykur

700-800 ml sjóðandi vatn

Blandið kryddinu og sykrinum vel saman. Hellið vatni yfir og hrærið vel þangað til sykurinn leysist upp og þangað til úr verður þykkt sykurvatn (sýróp).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×