Körfubolti

Haukur og Peter höfðu betur gegn íslensku drekunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. Vísir/Andri Marinó
Haukur Helgi Pálsson og Peter Öqvist, fyrrum þjálfari íslenska landsliðsins í körfubolta, höfðu betur á útivelli gegn Sundsvall Dragons, 94-85, í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Fjórir íslenskir leikmenn leika með liði Sundsvall Dragons en þrír þeirra spiluðu fyrir Peter Öqvist þegar hann þjálfaði Drekana á síðustu leiktíð. Það var nóg af íslenskum stigum í leiknum því þau urðu á endanum 61 talsins.

Tapið hjá Sundsvall Dragons í kvöld þýðir að liðið er búið að tapa tveimur fyrstu heimaleikjum sínum í deildinni en Drekarnir hafa unnið tvo af þremur útileikjum sínum.

Haukur Helgi Pálsson var næststigahæstur hjá LF Basket með 17 stig en hjá Sundsvall-liðinu skoraði Hlynur Bæringsson 18 stig, tók 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Jakob Örn Sigurðarson var með 17 stig og Ægir Þór Steinarsson skoraði 9 stig. Ragnar Nathanielsson fékk aðeins að spila í rétt rúmar tvær mínútur og skoraði ekki.

Sundsvall Dragons liðið byrjaði vel og var sjö stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 27-20, þar sem Jakob Örn Sigurðarson skoraði sjö af stigunum. LF Basket sótti í sig veðrið í öðrum leikhlutanum en Sundsvall var 50-48 yfir í hálfleik eftir þriggja stiga körfu frá Hlyni Bæringssyni.

LF Basket vann þriðja leikhlutann 29-20 og var því sjö stigum yfir fyrir lokaleikhlutann. Haukur Helgi var með níu stig í þessum flotta leikhluta hjá LF-liðinu. LF Basket skoraði síðan sjö fyrstu stigin í fjórða leikhlutanum og var allt í einu komið 14 stigum yfir, 84-70. Eftir það var sigurinn aldrei í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×