Körfubolti

Haukur Helgi: Það er ekkert hægt að hringja í mömmu núna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Haukur á ferðinni á síðasta Eurobasket.
Haukur á ferðinni á síðasta Eurobasket. vísir/Valli
Haukur Helgi Pálsson gat ekki æft með körfuboltalandsliðinu í dag vegna meiðsla.

„Ég fékk hnykk í bakið gegn Sviss og tognaði aðeins. Þetta er að verða fínt,“ segir Haukur Helgi en hann fylgdist að sjálfsögðu með æfingunni.

„Ég lenti í tveimur atvikum í leiknum gegn Sviss og varð mjög slæmur í bakinu er ég datt í bakið í seinna atvikinu. Þetta er frekar óþægilegt og ég er auðvitað ekki eins hreyfanlegur svona.

„Ég er í góðum höndum núna. Fékk frí í dag og svo verð ég á bekknum hjá sjúkraþjálfurunum. Ég reyni að skjóta aðeins og svona á morgun. Stefnan er að verða kominn í stand fyrir miðvikudaginn.“

Strákarnir eiga eftir tvo leiki í undankeppni EM og þeir verða helst báðir að vinnast. Á miðvikudag tekur liðið á móti Kýpur og svo er lokaleikurinn gegn Belgíu um næstu helgi.

„Ég hef engar áhyggjur af því að spila ekki. Ég verð með hvort sem ég þurfi að bryðja verkjalyf eða ekki. Maður vill ekki missa af þessu. Við verðum að vinna á miðvikudag. Ég verð að bíta á jaxlinn og það er ekkert hægt að hringja í mömmu núna,“ segir Haukur Helgi og glottir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×