Körfubolti

Haukur Helgi: Lærdómsríkt fyrir mig að vera gerður að fyrirliða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. Vísir/Valli
Íslenski landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson er orðinn fyrirliði franska liðsins Rouen Métropole Basket á sínu fyrsta ári.

Haukur Helgi var tekinn í viðtal á fésbókarsíðu liðsins þar sem hann fer yfir tímabilið til þess að ræðir ábyrgðina sem fylgir því að vera fyrirliði atvinnumannaliðs.

„Þetta tímabil hefur verið svolítið vonbrigði því mér finnst að við allir getum gert betur. Við lentum í vandræðum með meiðsli og leikbönn. Þetta er svo sem í lagi ennþá og við ætlum að gera enn betur í næsta hluta tímabilsins,“ sagði Haukur Helgi.

Haukur Helgi er á sínu fyrsta ári með Rouen eftir tímabil með Njarðvík í fyrravetur en hefur strax verið gerður að fyrirliða liðsins.

„Fyrirliðahlutverkið er bara titill sem skiptir í rauninni engu máli. Strákarnir hlusta á mig hvort sem er og við hlustum á hverja aðra. Það er samt lærdómsríkt fyrir mig að vera gerður að fyrirliða,“ sagði Haukur Helgi.

„Ég var heima á Íslandi síðasta vetur og hafði kannski aðeins of þægilegt. Ég vildi því komast út aftur og ná ferlinum aftur á flug,“ sagði Haukur Helgi.

„Ég stefni á að komast í úrslitakeppnina með liðinu og það er ekki nóg fyrir mig að við bara höldum okkur í deildinni. Ég vil komast í úrslitakeppnina,“ sagði Haukur Helgi.

Haukur Helgi fer líka yfir ferilinn sinn, bæði hvernig hann byrjaði og hvert körfuboltinn hefur tekið hann eins og til Bandaríkjanna þar sem hann var í skóla í Maryland.

Hann ræðir líka íslenska landsliðið og möguleika þess á Eurobasket næsta haust þar sem Ísland er meðal annars í riðli með Frökkum.

Það má sjá allt viðtalið við Hauk Helga hér fyrir neðan. Þar má einnig sjá nokkur flott tilþrif frá Hauki í leikjum sínum með Rouen Métropole Basket.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×