Körfubolti

Haukar upp að hlið KR á toppnum | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukar eru áfram með fullt hús stiga í Dominos-deild karla í körfubolta eftir ellefu stiga sigur á nýliðum Fjölnis, 87-76, á Ásvöllum í kvöld. Haukarnir hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína eins og Íslandsmeistarar KR.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum á Ásvöllum í kvöld og náði þessum myndum hér fyrir ofan.

Haukarnir voru lengi í gang gegn frískum Fjölnismönnum en sýndu styrk sinn og breidd í seinni hálfleiknum og þá einkum í þriðja leikhlutanum sem Haukaliðið vann 28-14.

Alex Francis var með 23 stig og 15 fráköst fyrr Hauka, Kári Jónsson skoraði 17 stig og Kristinn Marinósson var með 14 stig. Emil Barja lét sér nægja að skora 6 stig en var með 11 fráköst og 9 stoðsendingar.

Daron Lee Sims var með 18 stig og 13 fráköst fyrir Fjölni og Arnþór Freyr Guðmundsson skoraði 14 stig.

Fjölnismenn byrjuðu vel og komust í 18-11 í fyrsta leikhlutanum en eftir hann var staðan jöfn 20-20. Haukarnir voru síðan þremur stigum yfir í hálfleik 37-34 en þar munaði mikið um framlag Alex Francis sem var kominn með tvennu í hálfleik (14 stig og 11 fráköst).

Haukarnir unnu þriðja leikhlutann 28-14 og voru þá komnir með góð tök á leiknum sem þeir héldu allt til leiksloka. Fjölnismenn löguðu aðeins stöðuna en ógnuðu aldrei sigrinum.



Haukar-Fjölnir 87-76 (20-20, 17-14, 28-14, 22-28)

Haukar: Alex Francis 23/15 fráköst/5 stolnir, Kári Jónsson 17, Kristinn Marinósson 14/6 fráköst, Helgi Björn Einarsson 8/5 stoðsendingar, Sigurður Þór Einarsson 7, Emil Barja 6/11 fráköst/9 stoðsendingar, Hjálmar Stefánsson 5/9 fráköst, Haukur Óskarsson 5, Kristján Leifur Sverrisson 2.

Fjölnir: Daron Lee Sims 18/13 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 14/6 fráköst, Ólafur Torfason 14/9 fráköst, Róbert Sigurðsson 11, Valur Sigurðsson 10, Garðar Sveinbjörnsson 5/5 stolnir, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 4.

Emil Barja í leiknum í kvöld.Vísir/Ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×