Íslenski boltinn

Haukar unnu nauman sigur á KA | Myndir

Björgvin Stefánsson er þriðji markahæsti leikmaður 1. deildar með níu mörk.
Björgvin Stefánsson er þriðji markahæsti leikmaður 1. deildar með níu mörk. vísir/andri marinó
Haukar unnu í kvöld mikilvægan sigur á KA á Schenkervellinum í Hafnarfirði en með sigrinum eru Haukar níu stigum frá fallsæti þegar átta umferðir eru eftir. Á sama tíma virðist KA vera að missa af kapphlaupinu um sæti í Pepsi-deildinni á næsta ári en Norðanmenn eru tíu stigum á eftir Víking Ólafsvík í 2. sæti.

Um var að ræða síðasta leikinn í 14. umferðinni í 1. deild en honum var frestað vegna þátttöku KA í undanúrslitum Borgunarbikarsins fyrir helgi.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var markalaust þegar flautað var til hálfleiks. Andri Fannar Freysson skoraði fyrsta mark leiksins um miðbik seinni hálfleiks fyrir Hauka áður en Björgvin Stefánsson gerði út um leikinn fyrir Hauka með marki tíu mínútum fyrir leikslok.

Elfar Árni Aðalsteinsson náði að klóra í bakkann fyrir KA undir lok leiksins en lengra komust gestirnir ekki áður en dómari leiksins, Valgeir Valgeirsson, flautaði leikinn af.

Bæði lið eiga leiki gegn liðum í botnbaráttunni í næstu umferð þegar KA tekur á móti Gróttu á sama tíma og Haukar mæta Fram í Úlfársdalnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×