Körfubolti

Haukar skipta út Kana og fá Fógetann úr Hólminum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sherrod Wright spilar aftur í Domino's-deildinni.
Sherrod Wright spilar aftur í Domino's-deildinni. vísir/stefán
Domino's-deildarlið Hauka tilkynnti á Facebook-síðu félagsins nú undir kvöldið að það er búið að skipta um bandarískan leikmann.

Samningi hefur verið rift við Aaron Brown en í hans stað er kominn Sherrod Wright sem spilaði með Snæfelli í fyrra og var gjarnan kallaður Fógetinn í Hólminum.

Aaron Brown skoraði 19,7 stig, tók 8,3 fráköst og gaf 2,3 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum þremur sem hann spilaði með Haukum í deildinni en fram kemur í yfirlýsingu Hauka að hann þótti ekki standa undir væntingum.

Haukar byrja illa í deildinni en þeir eru aðeins með einn sigur í fyrstu þremur umferðunum. Hafnafjarðarliðið fór alla leið í lokaúrslitin á síðustu leiktíð.

Sherrod Wright var magnaður með Snæfelli á síðustu leiktíð en hann var stigahæsti leikmaður deildarinnar með 28,3 stig að meðaltali í leik auk þess sem hann tók níu fráköst og gaf 2,9 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Skotnýting Fógetans var einnig afburða góð en hann hitti úr 57 prósent skota sinna úr teignum og 37 prósent fyrir utan þriggja stiga línuna.

Wright verður frumsýndur í nýrri treyju þegar Haukar taka á móti Íslandsmeisturum KR í fjórðu umferðinni á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×