Handbolti

Haukar ferja stuðningsmenn sína frá Ásvöllum í Mýrina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Anton
Bæði handboltalið Hauka verða í eldlínunni í úrslitakeppninni í kvöld og það er bara tæpir tveir tímar á milli þess að leikir Haukaliðan hefjist.

Þetta gæti orðið sögulegt kvöld takist báðum meistaraflokkum félagsins að tryggja sig inn í úrslitin en bæði körfuboltalið félagsins fóru einnig í úrslit.

Bæði karlaliðið og kvennaliðið komast nefnilega í úrslit Olís-deildanna með sigri í kvöld og Haukarnir ætla að hjálpa sínu stuðningsfólki að mæta á báða leiki þótt að það sé svona stutta á milli leikjanna.

Haukastrákarnir eru fyrr á ferðinni en þeir spila á heimavelli sínum í Schenker-höllinni að Ásvöllum þegar Haukastrákarnir taka á móti liði ÍBV klukkan 18:15. Haukar eru komnir í 2-0 og komast því í lokaúrslitin með sigri.

Haukar verða með allt til alls á Ásvöllum eins og andlitsmálningu, grillaða hamborgara og pylsur gegn vægu verði sem og ljósasýningu og tryllta tónlist.  

Haukastelpurnar eiga síðan leik við Stjörnuna klukkan 20.00 en sá leikur fer fram í Mýrinni í Garðabæ.

Staðan í undanúrslitaeinvígi Hauka og Stjörnunnar er 2-1 Haukastelpum í vil sem þýðir að sigur skilar deildarmeisturum Hauka í úrslitaeinvígið á móti Gróttu.

Haukar bjóða upp á rútur frá Ásvöllum sem fara af stað eftir leik strákana og ferja stuðningsmenn sína frá Ásvöllum í Mýrina.  Það verður örugglega mikið fjör í rútunum ekki síst ef karlaliðið verður búið að tryggja sig inn í úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×