Handbolti

Hauka bíður erfitt verkefni gegn Alingsås

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslandsmeistarar Hauka mæta sænska liðinu Alingsås í 2. umferð EHF-bikarsins í handbolta í dag.

Alingsås hefur á sterku liði að skipa og er búið að vinna alla fjóra leiki sína á tímabilinu í deildinni heima fyrir.

Haukar hafa aftur á móti farið illa af stað í Olís-deildinni og eru aðeins búnir að vinna tvo leiki af sex.

„Við höfum brett upp ermar og leggjum helmingi harðar að okkur til að spila betur. Við vorum slakir í byrjun og ekkert sáttir. En við höfum snúið bökum saman og leggjum hart að okkur til að bæta okkur. Þetta er frábær tímapunktur fyrir okkur að rífa okkur upp,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Guðmundur Árni Ólafsson, sem kom til Hauka fyrir tímabilið, segir að það hafi vantað taktinn í lið Íslandsmeistaranna í upphafi tímabils.

„Það hefur vantað einhvers konar samheldni. Við vorum meðvitaðir um það og það voru allir af vilja gerðir. Svo fengum við utanaðkomandi hjálp og það hefur skilað sér,“ sagði Guðmundur en Haukar unnu góðan sigur á Akureyri á miðvikudaginn.

„Kjarninn og samheldnin var mun sterkari í síðasta leik. Það er tilhlökkun að fá Evrópukeppnina strax núna til að byggja ofan á þetta,“ bætti Guðmundur við.

Leikur Hauka og Alingsås í Schenker-höllinni hefst klukkan 16:00 í dag. Hægt verður að fylgjast með honum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×