Erlent

Háttsettir yfirmenn í Kína sakaðir um ólöglegt salamöndruát

Bjarki Ármannsson skrifar
Matarboð mannanna gæti hafa komið þeim í klandur.
Matarboð mannanna gæti hafa komið þeim í klandur. Vísir/Getty
Yfirvöld í Kína rannsaka nú hvort eitthvað sé til í því að háttsettir yfirmenn öryggisgæslunnar þar í landi hafi lagt sér risasalamöndru til munns í íburðarmiklu kvöldmatarboði í síðustu viku. Risasalamöndrur, sem geta orðið nærri 180 sentímetrar að lengd, þykja herramannsmatur í Kína en eru líka í bráðri útrýmingarhættu.

BBC greinir frá. Dagblað í borginni Shenzen greindi frá hinnu meintu kvöldmáltíð í síðustu viku en talsmenn blaðsins segja að tveir blaðamenn og ljósmyndari sem stálust inn á veitingastaðinn þar sem máltíðin átti að hafa farið fram hafi verið lamdir í kjölfarið. Símum þeirra og tækjabúnaði hafi einnig verið stolið.

Xi Jinping, forseti Kína, hefur lýst því yfir að hann vilji berjast gegn spillingu innan hins opinbera í landinu. Jafnframt voru refsiviðurlög hert í fyrra fyrir þá sem matreiða villt dýr í útrýmingarhættu.

Þrátt fyrir þetta fullyrðir dagblaðið að matarboð hafi verið haldið fyrir um 28 manns fyrir almannafé þar sem eitt stykki risasalamandra var á boðstólum. Ríkisfréttaveita Kína, Xinhua, segir að fjórtán lögreglumenn hafi verið leystir frá störfum vegna málsins en ekki er ljóst hvort þeir eigi að hafa verið gestir í matarboðinu eða tekið þátt í stympingunum eftir á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×