Erlent

Hátt settur leiðtogi Al-Shabab gafst upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn Afríkusambandsins hafa barist gegn Al-Shabab um árabil.
Hermenn Afríkusambandsins hafa barist gegn Al-Shabab um árabil. Vísir/AFP
Háttsettur leiðtogi Al-Shabab hryðjuverkasamtakanna gafst upp fyrir lögreglumönnum í Sómalíu. Zakariya Ahmed Ismail Hersi leiddi upplýsingadeild samtakanna og árið 2012 lögðu Bandaríkin þrjár milljónir dala til höfuðs hans. Það samsvarar um 380 milljónum króna.

Leiðtogi Al-Shabab í Sómalíu, Ahmed Abdi Godane, féll í loftárás fyrir þremur mánuðum og talið er að Hersi hafi gefist upp vegna deilna við fyrrverandi stuðningsmenn Godane. Hersi féll í ónáð í fyrra og hefur verið í felum síðan, en BBC segir hann áfram hafa haft gífurleg völd.

Lögreglumenn réðust til atlögu í hús þar sem Hersi hafði falið sig í sex daga. Húsið er nærri landamærum Sómalíu og Kenía og lögreglunni barst ábending um að Hersi væri í húsinu.

Þrátt fyrir að Hersi hafi borið vopn gafst hann upp án mótþróa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×