Innlent

Hátt í þúsund manns mótmæla á Austurvelli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Austurvelli í dag.
Frá Austurvelli í dag. vísir
Mótmæli standa nú yfir á Austurvelli annan laugardaginn í röð og eru hátt þúsund manns mættir til að mótmæla, að sögn fréttamanns 365 sem er á staðnum.

Mörg þúsund manns mættu á mótmæli fyrir viku en þá var vissulega betra veður heldur en í dag. Mótmælt hefur verið alla daga vikunnar á Austurvelli en upphaf mótmælaöldunnar má rekja til mánudagsins 4. apríl þegar allt að 22 þúsund manns mættu á Austurvöll, kröfðust kosninga strax og þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, myndi segja af sér embætti.

 

Sigmundur Davíð sagði svo af sér daginn eftir en mótmælendur hafa síðan krafist að boðað yrði til kosninga. Forystumenn ríkisstjórnarinnar, þeir Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, hafa ítrekað sagt að kosningar verði í haust. Dagsetning er hins vegar ekki komin á kosningarnar og samkvæmt Facebook-síðu mótmælanna í dag verður mótmælt þar til búið verður að fastsetja kjördag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×