Innlent

Hátt í 16.000 undirskriftir á sólarhring

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón Steinsson hagfræðingur er einn af þeim sem standa að undirskriftasöfnuninni.
Jón Steinsson hagfræðingur er einn af þeim sem standa að undirskriftasöfnuninni. Vísir
Hátt í 16.000 manns hafa síðastliðinn sólarhring skrifað undir hvatningu til forseta Íslands um að samþykkja ekki stjórnarfrumvarpið sem lagt hefur verið fram á Alþingi um úthlutun makrílkvóta, heldur vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Undirskriftunum er safnað á vefsíðunni Þjóðareign.is en að baki henni standa Agnar K. Þorsteinsson, sérfræðingur í upplýsingatækni, Bolli Héðinsson hagfræðingur, Elín Björg Ragnarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri, Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur, Henný Hinz hagfræðingur, Jón Sigurðsson, fyrrverandi skólastjóri Bifrastar, Jón Steinsson hagfræðingur og Þorkell Helgason, fyrrverandi prófessor.

Í tilkynningu sem send var út í gær vegna undirskriftasöfnunarinnar segir ð frumvarpið, sem felur í sér úthlutun makrílkvóta til útgerðarmanna til sex ára hið skemmsta og að veiðigjöld verði ákveðin til þriggja ára, fela í sér grundvallarbreytingu á tilhögun fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Verði það að lögum, sé útgerðinni í fyrsta sinn veitt óafturkallanlegt forræði yfir aflaheimildum til lengri tíma en eins árs. Alþingi geti ekki í reynd afturkallað þá ráðstöfun.

„Lagasetning af þessu tagi kemur í veg fyrir að unnt sé að kveða á um skilyrðislaust eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni með ákvæði í stjórnarskrá sem jafnframt tryggi að þjóðin njóti fulls gjalds af afnotum á auðlindinni,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Fréttin var uppfærð klukkan 17:00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×