Innlent

Háskóladagarnir haldnir með pomp og prakt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mynd/Háskóladagar
All­ir há­skól­ar lands­ins halda Há­skóla­dag­inn í sam­ein­ingu í dag. Mikill fjöldi hefur nú þegar sótt skólana heim til þess að kynna sér allt nám sem í boði í háskólunum á Íslandi. Dagurinn hófst klukkan 12 og lýkur 16. Það var Forseti Íslands Herra Guðni Th. Jóhannnesson sem opnaði daginn, sem haldinn er á hverju ári.

Það er hvergi jafn auglóst og einmitt á Háskóladaginn hve námsframboð á Íslandi er gott og fjölbreytt. Hægt er að velja úr yfir 500 námsleiðum í sjö háskólum. Þannig ættu allir að geta fundið sér nám við sitt hæfi. Það eru ekki bara námskynningarnar sem heilla í dag því dagskráin er fjölbreytt í húsakynnum HÍ, HR og LHÍ þar sem kynningarnar fara fram.

Gestir og gangandi geta gert ýmislegt sér til skemmtunar á Háskóladeginum. Sprengjugengi HÍ er með sýningar í Háskólabíói. Þar sýnir Háskóladansinn líka listir sínar og boðið verður upp á vísindabíó. Vísindasmiðjan verður á sínum stað þannig öll fjölskyldan ætti að geta haft gaman af. Einnig verður hægt að næla sér í axlarnudd og mælingu á blóðþrýstingi.

Hjá HR er hægt að setjast upp í bílhermi og kanna viðbragðstímann þegar snjallsími er notaður við akstur, kanna kasthraða og styrk golfsveiflunnar. Boðið verður upp á akstur í loftknúnum bíl og og hægt verður að setja á sig sýndarveruleikagleraugu til þess að athuga hvort fólk sé haldið fælni. Í Listaháskólanum springur reglulega eitthvað út sem tónlistarflutningur og gjörningar og í skoðunarferðum um húsnæðið verða verkstæðin í Laugarnesi skoðuð, vinnurými nemenda og nemendasýningar.

Háskóladagurinn mun svo í framhaldi af ofangreindum degi leggja land undir fót og heimsækja átta skóla utan höfuðborgarsvæðisins dagana 7. - 29. mars. Allir eru velkomnir.

Háskólarnir sjö eru HA, HÍ, HR, LHÍ, Háskólinn á Bifröst, Landbúnaðarháskólinn og Háskólinn á Hólum.

Háskóladagurinn á ferð og flugi

7. mars - Fjölbrautarskóla Suðurnesja

9. mars - Menntaskólanum á Ísafirði

10. mars - Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi

15. mars - Menntaskólanum á Egilsstöðum

16. mars - Menntaskólanum á Akureyri

16. mars - Verkmenntaskólanum á Akureyri

20. mars - Fjölbrautarskóla Vestmannaeyja

29. mars - Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×