Erlent

Harward hafnar boði um að verða þjóðaröryggisráðgjafi Trump

atli ísleifsson skrifar
Robert Harward er lengst til hægri á myndinni.
Robert Harward er lengst til hægri á myndinni. Vísir/AFP
Robert Harward, fyrrverandi aðstoðaraðmíráll í bandaríska hernum, hefur hafnað boði um að gerast þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta. Talsmaður Hvíta hússins segir að Harward hafi afþakkað boðið af persónulegum og fjárhagslegum ástæðum.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum segja þó að aðalástæðan hafi verið sú að hann hafi viljað koma með eigið starfslið inn í Hvíta húsið sem hafi ekki verið í boði.

Mikil pressa er nú á forsetanum í kjölfar þess að Michael Flynn hrökklaðist úr embætti þjóðaröryggisráðgjafa eftir að í ljós kom að hann hafði átt í samskiptum við sendiherra Rússa áður en hann tók við embætti.

Trump skipaði hershöfðingjann Keith Kellogg sem þjóðaröryggisráðgjafa til bráðabirgða í kjölfar afsagnar Flynn. Möguleiki er á að Kellogg fái fasta ráðningu, en nafn fyrrverandi forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar, David Petraeus, hefur einnig verið nefnt.

Harward er fyrrverandi aðstoðaraðmíráll og liðsmaður sérsveita bandaríska flotans (Navy SEAL). Hann átti sæti í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna í forsetatíð George W. Bush. Eftir að hann hætti í hernum hefur hann gegnt yfirmannsstöðu hjá Lockheed Martin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.


Tengdar fréttir

Trump kennir fjölmiðlum um afsögn þjóðaröryggisráðgjafa

Öldungadeildarþingmenn bæði Repúblikana og Demókrata í Bandaríkjunum þrýsta á að að ítarleg rannsókn fari fram á samskiptum fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump forseta og annarra starfsmanna framboðs hans við rússnesku leyniþjónustuna.

Spurt og svarað um samskipti Flynn og Rússa

Þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta sagði af sér fyrr í vikunni vegna samskipta sinna við fulltrúa rússneskra stjórnvalda.

Trump segir fjölmiðla vera stjórnlausa

Blaðamannafundur Trump þar sem hann kynnti nýtt ráðherraefni sitt snerist að mestu um hvað fjölmiðlar væru hræðilegir og að ríkisstjórn hans gengi eins og vel smurð vél.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×