Innlent

Hart barist um formannsembættið í Dýraverndarsambandinu

Erla Hlynsdóttir skrifar
Barist um formanninn.
Barist um formanninn.
Átakafundur stendur yfir í Dýraverndarsambandi Íslands þar sem tveir frambjóðendur berjast um formannsstólinn. Fjöldi félagsmanna hefur nánast tvöfaldast á einni viku.

Aðalfundur Dýraverndarsambandsins hófst í Norræna húsinu klukkan ellefu. Ólafur Dýrmundsson tilkynnti fyrir nokkru að hann ætlaði að láta af störfum sem formaður.

Þau sem gefa kost á sér sem nýr formaður eru Sif Traustadóttir dýralæknir og Árni Stefán Árnason lögfræðingur.

Sif er fyrrverandi formaður Dýralæknafélags Íslands og sat í nefnd sem skipuð var af umhverfisráðherra til að endurskoða frá grunni dýravelferðarlögin.

Árni Stefán lauk lögfræðigráðu sinni á síðasta ári og hefur sérhæft sig í dýrarétti. Hann hefur meðal annars starfað fyrir Kattavinafélag Íslands.

Núverandi stjórn Dýraverndarsambandsins lagði fram tillögu sína að nýrri stjórn þar sem Sif verður formaður. Árni Stefán bauð sig síðan fram gegn henni.

Félagsmenn sem fréttastofa ræddi við lýsa muninum á þeim helst þannig að Sif hefur unnið með yfirvöldum til að þrýsta á um breytingar, á meðan Árni Stefán sé aðgerðasinni.

Fjöldi félagsmanna hafði lengi verið svipaður og voru í síðustu viku um 150 félagsmenn skráðir. Á liðinni viku hefur fjöldinn tæplega tvöfaldast og þegar hætt var að taka við nýjum skráningum fyrir aðalfundinn í gær voru félagsmenn orðnir um 275. Úrslit kosninganna liggja fyrir síðar í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×