Lífið

Harrison Ford lemstraður en annars í lagi

Atli Ísleifsson skrifar
Ford stýrði lítilli flugvél og brotlenti á golfvelli í Los Angeles, skömmu eftir að hafa tekið á loft á flugvellinum í Santa Monica.
Ford stýrði lítilli flugvél og brotlenti á golfvelli í Los Angeles, skömmu eftir að hafa tekið á loft á flugvellinum í Santa Monica. Vísir/AFP/AP
Sonur bandaríska leikarans Harrison Ford segir föður sinn vera lemstraðan en annars í lagi eftir að hafa lent í flugslysi í gær.

Ford stýrði lítilli flugvél og brotlenti á golfvelli í Los Angeles, skömmu eftir að hafa tekið á loft á flugvellinum í Santa Monica.

Hinn 72 ára Ford tilkynnti um vélarvandræði skömmu eftir flugtak, en vélin var af gerðinni Ryan Aeronautical ST3KR vél, framleidd árið 1942 og var notuð í seinna stríði.

Ina Treciokas, talsmaður Ford, segir meiðsli hans ekki vera lífshættuleg og er búist við að hann jafni sér að fullu. Tveir læknar sem voru að spila golf á flugvellinum komu fyrstir að Ford og hlúðu að sárum hans þar til sjúkralið mætti á staðinn og flutti hann á sjúkrahús.

Ekki er að fullu ljóst hvers eðlis sár Ford eru, en fréttamiðillinn TMZ greindi frá því að hann hafi hlotið fjölmörg sár á höfði.

Í frétt BBC segir að vélin hafi hæst flogið í um 3.000 feta hæð (914 metrar) og rakst á tré á leið sinni til jarðar. Ford brotlenti á áttundu holu Penmar golfvallarins. Sérfræðingar hafa margir hrósað Ford sérstaklega fyrir nauðlendingu sína.

Harrison Ford lærði fyrst að fljúga þegar hann var kominn á sextugsaldurinn og hefur einnig leyfi til að fljúga þyrlum. Árið 1999 brotlenti Ford þyrlu í æfingaflugi í Los Angeles, en bæði Ford og kennari hans sluppu þá ómeiddir.

Að neðan má hlýða á hljóðupptöku þar sem Ford greinir flugstjórn frá vélarbiluninni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×