Innlent

Harpa nýtist í tölvuleiki

Birta Björnsdóttir skrifar
Undanfarin kvöld hefur sést til fólks standa  á Arnarhóli niðursokkið í snjallsíma sína sem þeir beina að Hörpu.

„Þau eru að spila tölvuleikinn Pong,” segir Atli Bollason, listamaður, sem ásamt Owen Hindley hrinti þessarri nýju nýtingu á framhlið Hörpu í framkvæmd. „Tölvuleikurinn verður í boði frá klukkan 21.30 á hverju kvöld fram á sunnudag.”

Ólafur Elíasson hannaði sem kunnugt er ljósin í Hörpu en þetta er í fyrsta sinn sem hann gefur leyfi fyrir því að ljósin séu notuð í listaverk annara, að sögn Atla.

Og það geta allir sem aðgang hafa að snjallsíma verið með.

„Þetta er mjög auðvelt,” segir Atli. „Hér á Arnarhóli tengjast snjallsímanotendur sjálfkrafa þráðlausu neti sem tengir þig beint við leikinn. Ef það eru fleiri en tveir skráðir inn í einu ferðu bara í biðröð og bíður stutta stund. Það geta bara tveir spilað í einu.”

Atli segir að sannarlega væri spennandi að reyna fleiri tölvuleiki á Hörpu.

„Já auðvitað, Snake og Tetris til dæmis. Ætli við endum þetta svo ekki á Grant Theft Auto en þá þarf kannski að útvega fleiri ljósaperur á Hörpu.”

Hægt verður að spila Pong á Hörpu fram á sunnudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×