Lífið

Harmonikku­tón­list og tafl­kennsla á Óðin­s­torgi

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Tanja Levý, ein af skipuleggjendum viðburðarins, sést hér á Óðinstorgi þar sem verður hægt að tefla í dag.
Tanja Levý, ein af skipuleggjendum viðburðarins, sést hér á Óðinstorgi þar sem verður hægt að tefla í dag. Vísir/Eyþór
„Við erum þrjár sem erum með verkefnið Torg í biðstöðu á vegum Reykjavíkurborgar – ég, Ágústa Sveinsdóttir og Helga Páley.

Við erum að skipuleggja viðburði á Óðinstorgi út sumarið. Í dag ætlum við að vera með tafl og tóna – við verðum með tíu taflborð í boði fyrir gesti og gangandi ef þeir vilja spreyta sig á taflinu og síðan kemur Flemming Viðar Valmundsson harmonikkuleikari klukkan tvö og tekur lagið.

Stefán Bergsson kemur frá Skákakademíu Reykjavíkur og leiðbeinir fólki sem hefur áhuga á því að læra að tefla. Í kringum Óðinstorg eru síðan veitingastaðir og kaffihús og kaffihúsið C is for cookie verður með tilboð á þessum degi – það verður uppáhellt kaffi og pönnukaka á 500 krónur,“ segir Tanja Levý, ein af þremur skipuleggjendum viðburðarins Tafls og tóna sem haldinn verður í dag frá tvö til fimm á Óðinstorgi.

Verkefnið Torg í biðstöðu er liður í þeirri stefnu Reykjavíkurborgar að vera skapandi, græn og fyrir fólk og alls konar. Verkefninu er ætlað að virkja skapandi borgarbúa, hlúa að almenningsrýmum borgarinnar og breyta til og hefur það verið í gangi síðan 2010.

„Við byrjuðum á að flikka upp á Vitatorg og síðan færðum við okkur yfir á Óðinstorg þar sem við sjáum um viðburði. Við erum búnar að halda kubbmót og daginn eftir Tóna og tafl verður síðan útijóga og salsakvöld á Óðinstorgi. Það er hægt að sjá dagskrána á Face­book-­síðu Reykjavíkurborgar þar sem þessir atburðir verða auglýstir,“ segir Tanja um framtíð Óðinstorgs í sumar en það verður greinilega nóg um að vera það sem eftir lifir sumars.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×