Innlent

Harma umferðaröngþveiti: Segja Kópavogsbæ hafa brugðist bæjarbúum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Týr fer fram á að bæjarstjórn geri nákvæma grein fyrir hvað fór úrskeiðis í Kópavogi í gær.
Týr fer fram á að bæjarstjórn geri nákvæma grein fyrir hvað fór úrskeiðis í Kópavogi í gær. Vísir/GVA
Týr, félag ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, hefur sent frá sér ályktun vegna þess að ekki var byrjað að salta og moka götur bæjarins í gær fyrr en rúmlega 8 um morguninn. Olli það miklu umferðaröngþveiti enda hafði snjóað um nóttina og hált var á vegum.

Í ályktuninni segir að félagið harmi „þann atburð sem átti sér stað í Kópavogi þriðjudaginn 21. október síðast liðinn, þegar Kópavogsbær brást bæjarbúum og götur bæjarins voru ekki saltaðar.“

Félagið segist líta svo á að um virkilega alvarlegan atburð sé að ræða þar sem mikið hafi verið um umferðarslys- og óhöpp sem annars hefðu líklegast ekki orðið. Fer félagið fram á að bæjarstjórn geri nákvæma grein fyrir hvað fór úrskeiðis og hvernig bæta skuli úr verkferlum svo slíkt komi ekki fyrir aftur.

Þá segir í lok ályktunarinnar:

„Vill Týr hvetja þá aðila sem urðu fyrir tjóni vegna þessara mistaka að kanna rétt sinn til skaðabóta úr hendi bæjarins. En telja verður að bærinn geti hæglega borið ábyrgð á því tjóni.“

Ályktunin er í heild sinni er hér fyrir neðan.

Týr, félag ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, harmar þann atburð sem átti sér stað í Kópavogi þriðjudaginn 21. október síðast liðinn, þegar Kópavogsbær brást bæjarbúum og götur bæjarins voru ekki saltaðar.

Félagið telur þennan atburð virkilega alvarlegan enda olli hann fjölda umferðarslysa- og óhappa sem annars hefðu að öllum líkindum ekki orðið. Enda er ekki leyfilegt fyrir almenning að setja bíla sína á nagladekk fyrr en 1. nóvember. Þá fer félagið fram á það að bæjarstjórn gefi félaginu ásamt bæjarbúum skýrari svör um hvað nákvæmlega fór úrskeiðis þennan morgun. En einnig að útlistað sé hvernig eigi að bæta úr verkferlum bæjarins, þannig að útilokað sé að slíkt eigi sér stað aftur.

Eins og nefnt er að ofan varð fjöldinn allur af umferðaslysum- og óhöppum þegar fólk var á leið til vinnu og í skóla þennan morgun sem rekja má til mistaka starfsmanna bæjarins sem bæjaryfirvöld bera ábyrgð á. Vill Týr hvetja þá aðila sem urðu fyrir tjóni vegna þessara mistaka að kanna rétt sinn til skaðabóta úr hendi bæjarins. En telja verður að bærinn geti hæglega borið ábyrgð á því tjóni.

Stjórn Týs f.u.s. Kópavogi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×