Íslenski boltinn

Harma líkamsárás í knattspyrnuleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stjórn knattspyrnudeildar Sindra á Höfn í Hornafirði hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna atviks sem átti sér stað í leik 2. flokks félagsins gegn Snæfellsnesi um liðna helgi.

Leikmönnum liðanna lenti saman með þeim afleiðingum að leikmaður Sindra réðst á leikmann Snæfellsness og veitti honum alvarlega höfuðáverka. Þyrla landhelgisgæslunnar var kölluð til eftir að leikmaðurinn missti meðvitund og hann fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Umræddur leikmaður Snæfellsness er á batavegi en lögreglurannsókn fór af stað strax á sunnudag og má búast við að ákæra verði gefin út. Þá mun aganefnd KSÍ einnig taka málið til meðferðar hjá sér.

Stjórn deildarinnar harmar atvikið mjög og hefur beðið leikmann Snæfellsness og fjölskyldu hans afsökunar, líkt og sjá má í yfirlýsingunni hér fyrir neðan.

Þá mun hún einnig beita sér fyrir því að hjálpa leikmanni Sindra og leita aðstoðar barnaverndaryfirvalda og fagfólks.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„YFIRLÝSING FRÁ STJÓRN KNATTSPYRNUDEILDAR SINDRA.

Stjórn knattspyrnudeildar Sindra harmar atvik sem átti sér stað á Hellissandsvelli í leik Snæfells og Sindra í 2. flokki karla, sunnudaginn 20. júlí sl., þar sem tveimur leikmönnum lenti saman undir lok leiksins. Leikmaður Sindra gerðist sekur um líkamsárás sem leiddi til þess að leikmaður Snæfells var fluttur á sjúkrahús. Stjórn knattspyrnudeildar Sindra harmar mjög þetta atvik og vill fyrir hönd félagsins og leikmannsins biðja leikmann Snæfells og fjölskyldu hans afsökunar. Stjórn knattspyrnudeildar Sindra lítur atvik sem þetta mjög alvarlegum augum. Stjórnin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að hjálpa leikmanni Sindra í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að sambærilegt atvik endurtaki sig. Í þeirri viðleitni mun stjórnin leita aðstoðar barnaverndaryfirvalda á Höfn og fagfólks.

Skýrsla dómara leiksins er nú þegar komin inn á borð aganefndar KSÍ. Leikmaður Sindra mun una niðurstöðu aganefndar KSÍ þegar hún liggur fyrir. Það sama mun knattspyrnudeild Sindra gera.

Það er von stjórnar knattspyrnudeildar Sindra að atvik þetta verði ekki til þess að skaða gott orðspor knattspyrnunnar á Íslandi. Stjórnin mun nú sem endranær hvetja leikmenn, þjálfara og stuðningsmenn til að sýna háttvísi og heiðarleika. Þannig bætum við íslenska knattspyrnu.

Með virðingu og vinsemd.

Stjórn knattspyrnudeildar Sindra“


Tengdar fréttir

Meiðsli drengsins minni en óttast var

Líðan leikmanns Snæfellsness, sem fluttur var með þyrlu landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í gær, er mun betri en talið var í fyrstu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×