Lífið

Hárið orðið að listaverki

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hrafnkell Örn Guðjónsson er ánægður með listaverkið.
Hrafnkell Örn Guðjónsson er ánægður með listaverkið. Mynd/Esther Þorvalds
„Pabbi afhenti mér listaverkið fyrir skömmu en ég hef ekki hugmynd um hvað hann var lengi að búa þetta til,“ segir trommuleikarinn Hrafnkell Örn Guðjónsson, en hann fékk afhent trélistaverk frá föður sínum fyrir skömmu. Um er að ræða skúlptúr úr tré sem gerður er eftir tólf ára gamalli hárgreiðslu Hrafnkels.

„Fyrir tólf árum bað pabbi mig um að sitja fyrir á mynd en tók svo bara mynd af hárinu mínu. Fyrir skömmu gaf hann mér svo listaverkið og hangir það uppi á vegg hjá mér,“ segir Hrafnkell Örn.

Faðir hans, Guðjón Ketilsson var iðinn á árum áður við að búa til alls skyns skúlptúra úr tré þar sem hár er fyrirmyndin.

Sideshow Bob og Hrafnkeli Erni eru stundum ruglað saman á mannamótum.Vísir/Getty
Hrafnkell Örn er þó með talsvert meira hár í dag og hefur fengið talsverða athygli fyrir einstaka hárgreiðslu. Honum hefur verið líkt við knattspyrnukappann David Luiz og glæpamanninn Sideshow Bob úr Simpsons. „Ég hef fengið að heyra það sérstaklega mikið að ég og Simpson-gaurinn séum líkir,“ segir Hrafnkell Örn og hlær.

Hann er með mikið hár í dag og stefnir ekki á fara í klippingu á næstunni. „Ég hef ekki farið í klippingu í nokkur ár og er ekkert á leiðinni í klippingu á næstunni.“

Hrafnkell Örn hefur í nógu að snúast þessa dagana, ásamt því að vera spila með hljómsveitinni sinni Agent Fresco er hann einnig að spila með Emmsjé Gauta, Úlfi Úlfi, Young Karin, Steinari og Sign. „Það er gott að vera með mikið hár þegar mann langar til að slamma á bak við settið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×