Körfubolti

Harden og Wall bestir í NBA í síðustu viku ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden og John Wall.
James Harden og John Wall. Vísir/Samsett frá Getty
James Harden hjá Houston Rockets og John Wall hjá Washington Wizards voru valdir bestu leikmenn NBA-deildarinnar í síðustu viku ársins eða frá 26. desember 2016 til og með 1. janúar 2017. Harden var bestur í Vesturdeildinni en Wall í Austurdeildinni.

James Harden og félagar í Houston Rockets unnu alla fjóra leiki sína í vikunni. Harden var með 37,3 stig, 12,5 stoðsendingar og 9,8 fráköst að meðaltali í leik í þessum fjórum leikjum. Hann hitti úr 56 prósent skota sinna utan af velli og setti niður 89 prósent víta sinna.

Harden var með yfir 30 stig og 10 stoðsendingar í öllum fjórum leikjunum en hann endaði vikuna á tveimur þrennum í röð. Fyrst var hann með 30 stig, 13 fráköst, 10 stoðsendingar og 5 stolna bolta í 140-116 sigri Houston á Los Angeles Clippers og svo var hann daginn eftir með 53 stig, 17 stoðsendingar, 16 fráköst og 9 þriggja stiga körfur í 129-122 sigri á New York Knicks.

Þetta er í þriðja sinn á þessu tímabili og í tólfta sinn á ferlinum sem Harden er valinn besti leikmaður vikunnar í NBA. Harden var á móti New York Knicks á Gamlársdag fyrsti leikmaðurinn til að vera með 50 stig, 15 stoðsendingar og 15 fráköst í einum leik og hann jafnaði þá líka met Wilt Chamberlain frá 1968 yfir flest stig í þrennu.

Wall og félagar í unnu alla þrjá leiki sína í vikunni. Wall var með 24,3 stig, 13,0 stoðsendingar, 5,3 fráköst og 2,67 stolna bolta að meðaltali í leik. Hann var með 18 stig og 16 stoðsendingar í sigri á Milwaukee Bucks og var einnig með 36 stig, 11 fráköst og 9 stoðsendingar í sigri á Indiana Pacers.

Aðrir sem komu til greina sem leikmenn vikunnar voru eftirtaldir: Isaiah Thomas hjá Boston, Nikola Jokic hjá Denver, DeAndre Jordan hjá Clippers, Giannis Antetokounmpo hjá Milwaukee, Anthony Davis hjá New Orleans, Joel Embiid hjá Philadelphia, C.J. McCollum hjá Portland og DeMarcus Cousins hjá Sacramento.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×